Mikil áskorun í mikilli skattlagningu

Jens Garðar Helgason, formaður SFS, segir mikla áskorun að keppa …
Jens Garðar Helgason, formaður SFS, segir mikla áskorun að keppa á alþjóðlegum markaði með hærri álögur en keppinautarnir. mbl.is/Árni Sæberg

Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er í alþjóðlegri sam­keppni og býr í dag við mun hærri skatt­lagn­ingu en nokk­ur ann­ar sjáv­ar­út­veg­ur í heim­in­um. Það er því mik­il áskor­un að halda því for­skoti sem Íslend­ing­ar hafa, var haft eft­ir Jens Garðari Helga­syni, for­manni Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, í sér­blaði 200 mílna.

Í sam­tali við 200 míl­ur nefndi Jens sem dæmi að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hjá einni af helstu sam­keppn­isþjóðum okk­ar, Nor­egi, borgu[u hvorki kol­efn­is­gjöld, veiðigjöld, hafn­ar­gjöld, vöru­gjöld né afla­gjöld.

„Stjórn­völd verða að vera meðvituð um þess­ar staðreynd­ir sem og um al­mennt rekstr­ar­um­hverfi sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja á Íslandi, því hærri rekstr­ar­kostnaður á Íslandi verður ekki sótt­ur í vasa kaup­enda með enn frek­ari hækk­un á verði. Á mörkuðum okk­ar í Evr­ópu, þrátt fyr­ir sterka stöðu Íslend­inga, rík­ir gríðarlega hörð sam­keppni í lang­flest­um til­fell­um.“

Reglu­verkið hamli vexti

Spurður hvernig hljóðið sé í fyr­ir­tækj­um inn­an sam­tak­anna bend­ir hann á að eins og alltaf séu áskor­an­ir í rekstri, hvort sem um sé að ræða fyr­ir­tæki í hefðbundn­um sjáv­ar­út­vegi eða í eldi. Þær áskor­an­ir verði alltaf til staðar.

„En ég tel engu að síður að gang­ur­inn sé nokkuð bæri­leg­ur. Við, eins og aðrar at­vinnu­grein­ar, störf­um í um­hverfi þar sem rekstr­ar­gjöld eru há og skatt­ar og önn­ur gjöld með hærra móti. Það er sam­eig­in­legt verk­efni at­vinnu­lífs­ins að ná fram lækk­un gjalda, einkum trygg­inga­gjalds, og ein­föld­un á reglu­verki sem er orðið hamlandi fyr­ir vöxt og fram­gang margra fyr­ir­tækja á Íslandi í dag.“

Gjaldið end­ur­spegli gengið

Jens rifjaði upp að veiðigjöld síðasta árs hefðu verið al­gjör­lega úr öll­um takti við gengi grein­ar­inn­ar og raun­ar höggvið mjög nærri rekstri margra fyr­ir­tækja í fyrra. „Veiðigjaldið fyr­ir árið 2019 er ákveðin aðlög­un að nýrri gjald­töku sem tek­ur gildi 1. janú­ar á kom­andi ári. Það er von mín að ný nálg­un á veiðigjaldið verði til þess að gjaldið end­ur­spegli bet­ur gengi grein­ar­inn­ar á hverj­um tíma, en það get­ur tím­inn einn leitt í ljós,“ sagði hann.

„Hins veg­ar er það alltaf svo, al­veg sama hvað skatt­ur­inn heit­ir, að eft­ir því sem þú kaf­ar dýpra í vasa at­vinnu­lífs­ins í skatt­heimt­unni þá verður minna eft­ir til fjár­fest­inga, ný­sköp­un­ar, launa­hækk­ana og annarra verk­efna. Mín skoðun er sú að minni skatt­heimta leiði af sér frek­ari sókn at­vinnu­grein­anna og skatt­stofn rík­is­ins stækk­ar þar af leiðandi.“

mbl.is