Örlögin leiddu Höllu til Kaupmannahafnar

Halla Marín hefur búið í Kaupmannahöfn í 7 ár.
Halla Marín hefur búið í Kaupmannahöfn í 7 ár. Ljósmynd/Aðsend

Halla Marín Hafþórs­dótt­ir hef­ur búið í Kaup­manna­höfn í Dan­mörku í sjö ár. Hún flutti upp­haf­lega til borg­ar­inn­ar til að læra leik­list, sem hún gerði fyrsta árið. Lífið hef­ur hins veg­ar leitt hana á aðrar slóðir og starfar hún nú sem veit­inga­stjóri Gló í Dan­mörku. Hún hef­ur einnig unnið sem vínþjónn lengi og stundaði nám í Asíu­fræðum og indó­nes­ísku um tíma. Þá fór hún í eitt ár til Balí í skipti­nám. Halla hef­ur unnið hjá Gló frá því að veit­ingastaður­inn var fyrst opnaður í Dan­mörku, fyrst sem aðstoðarmaður í eld­húsi, síðar aðstoðarkokk­ur og nú sem veit­inga­stjóri.

Halla hef­ur komið víða við í heim­in­um. Hún er fædd og upp­al­in á Húsa­vík, en fór sem skipt­inemi til Ítal­íu á unglings­ár­un­um. Síðar fór hún aft­ur til lands­ins en þá sem au pair. Hún hef­ur einnig búið um tíma í Ástr­al­íu og farið í heims­reisu um Suðaust­ur-Asíu. Halla trú­ir því að ör­lög­in hafi leitt hana til Kaup­manna­hafn­ar og vill hún nú hvergi ann­ars staðar vera.

Hvað heillaði þig við Kaup­manna­höfn þegar þú flutt­ir þangað?

Það verður að segj­ast að ég ætlaði mér aldrei að flytja til Skandi­nav­íu. Ég leitaði alltaf lengra, bjó m.a. á Ítal­íu í tvö ár, ferðaðist mikið og langt í burtu og bjó líka um tíma í Ástr­al­íu. Svo hug­mynd­in um Dan­mörku var mjög fjar­læg og mér fannst það ein­hvern veg­inn alltof ná­lægt og líkt Íslandi. En ég trúi því að ör­lög­in hafi leitt mig hingað til Kö­ben því ég hef aldrei litið til baka og vil hvergi ann­ars staðar vera. Það eru ein­hverj­ir töfr­ar við Kaup­manna­höfn sem er erfitt að út­skýra. Það sem kannski heillaði mig allra mest við fyrstu kynni var hjóla­menn­ing­in. Ég hafði hjólað í vinnu og skóla í Reykja­vík við það sem verður að kalla afar lé­leg skil­yrði, svo að upp­lifa hvernig hjólið kem­ur þér í raun fljót­ar á milli staða en ann­ar far­ar­máti fannst mér magnað.
Fyr­ir utan það hvað borg­in er ein­stak­lega fal­leg, og hæfi­lega stór að mínu mati, þá elska ég líka hversu auðvelt það er að kom­ast út í nátt­úr­una. Sem ekta lands­byggðarpía er það mjög mik­il­vægt fyr­ir mig að hafa auðvelt aðgengi að haf­inu.

Hjólamenningin heillaði Höllu.
Hjóla­menn­ing­in heillaði Höllu. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvaða hverfi eru í upp­á­haldi hjá þér?
Ég bý sjálf í hjarta Nør­re­bro og hef gert al­veg síðan ég flutti hingað og Nør­re­bro er í mestu upp­á­haldi. Vester­bro og Christians­havn eru einnig í miklu upp­á­haldi, sem og Refs­haleøen sem er í hraðri upp­bygg­ingu, en það er iðnaðar­hverfi, svo um­hverfið er hrátt en virki­lega heill­andi á sama tíma. Þar eru kom­in galle­rí, bar­ir og veit­ingastaðir, og „Ref­fen“, Copen­hagen Street Food, er þar líka. Á sumr­in er Refs­haleøen líka geggjaður staður til að sóla sig og synda í sjón­um. Sumstaðar á eyj­unni líður manni eins og maður sé stadd­ur úti á landi, alls ekki í miðri borg.

Áttu þér upp­á­haldsveit­ingastað eða -bar?
Ó, svo marga! Mal­beck, Pom­pette, La Banchina og Sa­botøren fyr­ir gott vín og huggu­leg­heit.
Brus, Warpigs, Mikk­ell­er Bag­haven og Køl­sters Tolv Haner fyr­ir góðan bjór.  
Os­borne, Cafe Nick, Bo-Bi Bar og Mc.Kluud eru upp­á­hald­söl­stof­urn­ar mín­ar (bo­dega) og að fara á eina slíka er al­veg ekta danskt.
Kaf (100% veg­an kaffi­hús), Bevars, Stefanos mad & kaf­fe, og Gav­len fyr­ir bröns og kaffi.
Veit­ingastaðir sem ég fer alltaf aft­ur og aft­ur á eru m.a. Atlas Bar, Mahalle og Ma'ed Et­hi­opi­an Restaurant.

Bestu pítsur Kaup­manna­hafn­ar finn­urðu hjá Nino á Guld­bergs­ga­de á Nør­re­bro. Fyr­ir fínni stað og geggjaða mat­ar­upp­lif­un mæli ég al­gjör­lega með Restaurant Mastek i Nor­d­havn.

Halla vill helst hvergi annarsstaðar búa en í Kaupmannahöfn.
Halla vill helst hvergi ann­arsstaðar búa en í Kaup­manna­höfn. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvernig er skemmtana­lífið í Kaup­manna­höfn?

Skemmtana­lífið er mjög fjöl­breytt og alltaf hægt að finna eitt­hvað við allra hæfi. Per­sónu­lega er ég mest fyr­ir vín­bari og öl­stof­ur og minna fyr­ir klúbba. Á sama tíma elska ég að dansa við elektrón­íska tónlist, svo að á góðum degi get­urðu al­veg fundið mig á sveitt­um stað i Kød­byen. Það eru alltaf ein­hver „festi­völ“ í gangi hérna og hægt að finna góð partí úti um alla borg, á hvaða árs­tíma sem er. Seinni part föstu­dags er ein­hver óút­skýr­an­leg og raf­mögnuð stemn­ing yfir Kaup­manna­höfn, sér­stak­lega í góðu veðri, en það er rosa­lega sterk hefð hér fyr­ir að kíkja út í bjór eða kokteil með vinnu­fé­lög­un­um eða vina­hópn­um eft­ir vinnu á föstu­dög­um. Ég elska það!

Hvað er ómiss­andi að sjá?

Mér finnst ómiss­andi fyr­ir fólk að sjá borg­ina ann­ars veg­ar frá höfn­inni og hins veg­ar ofan frá.

Ég fer með alla mína gesti í „kanalrund­fart“ sem er sigl­ing um höfn­ina og gef­ur að mínu mati ein­staka upp­lif­un af borg­inni. Farið er frá Nyhavn, ferðin tek­ur klukku­tíma og er meðal ann­ars siglt fram­hjá Óperu­hús­inu, litlu haf­meyj­unni og eft­ir kanaln­um sem ligg­ur í gegn­um Christians­havn. Einnig er Go­Boat al­gjör snilld, en þar leig­irðu lít­inn bát í nokkra tíma, hann rúm­ar átta farþega og er vin­sælt að taka með sér nesti og síðan sigla um höfn­ina og kana­l­ana á eig­in veg­um.
Það eru marg­ir mögu­leik­ar í boði þegar kem­ur að því að fá gott út­sýni yfir borg­ina. Mín­ir upp­á­haldsstaðir til þess eru Vor Frelsers Kir­ke, turn­inn í Christians­borg og Himm­elski­bet í Tív­olí, sem er róla sem snýst í hringi hátt uppi, nán­ar til­tekið 80 metra hátt uppi.
Ann­ars mæli ég sterk­lega með því að kikja á óperu­sýn­ingu í Óperu­hús­inu eða ball­ett­sýn­ingu í Det Kong­elige Tea­ter, upp­lif­un­in ein að koma í bygg­ing­arn­ar er þess virði. Það er alltaf eitt­hvað áhuga­vert í sýn­ingu hérna og að mínu mati er einn af stærstu kost­um Kaup­manna­hafn­ar ein­mitt mjög ríkt menn­ing­ar­líf.

Halla hvetur alla til að leita lengra en Strikið og …
Halla hvet­ur alla til að leita lengra en Strikið og Nyhavn. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvernig er drauma­dag­ur­inn þinn í Kaup­manna­höfn?

Drauma (frí)dag­ur­inn byrj­ar á því að ég sef út, fer í jóga­tíma og borða há­deg­is­mat á upp­á­haldskaffi­hús­inu mínu, Kaf, sem ég er svo hepp­in að hafa rétt fyr­ir utan dyrn­ar hjá mér.
Þar á eft­ir fer ég í fjár­sjóðsleit á „lopp­emar­ked“ og jafn­vel hoppa í sjó­inn ein­hvers staðar. Um kvöldið býð ég vin­um heim í garðinn í mat og vín og svo fær­um við okk­ur á ein­hvern bar eða öl­stofu seinna meir.

Eru ein­hverj­ar túrista­gildr­ur sem ber að var­ast?

Veit ekki hvort þetta flokk­ast sem túrista­gildra, en ég vil hvetja fólk sem heim­sæk­ir Kaup­manna­höfn til að leita aðeins út fyr­ir Strikið og Nýhöfn. Kaup­manna­höfn er svo miklu, miklu meira en bara miðborg­in, sem að mínu mati gef­ur ekki rétta mynd af því hvað borg­in er í raun­inni ótrú­lega fjöl­breyti­leg og skemmti­leg.

Hægt er að sóla sig og skella sér í sjóinn …
Hægt er að sóla sig og skella sér í sjó­inn á hinum ýmsu bryggj­um Kaup­manna­hafn­ar. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is