Carrie Lam ríkisstjóri Hong Kong segir að hún muni draga umdeilt lagafrumvarp sem á að heimila framsal meintra brotamanna til Kína til baka að fullu.
Upphaf gríðarlegrar mótmælaöldu í Hong Kong má rekja til frumvarpsins, sem ríkisstjórinn kynnti í apríl og margir íbúar Hong Kong óttuðust að væri í raun eins konar trójuhestur fyrir kínversk stjórnvöld til að seilast til frekari valda yfir sjálfstjórnarhéraðinu.
Mótmælin hafa staðið yfir linnulaust síðan fyrirhugað frumvarp var kynnt og harkan í þeim aukist jafnt og þétt. Lam lofaði að fresta frumvarpinu en vildi ekki útiloka að það yrði sett á dagskrá síðar. Nú hefur hún hins vegar gert það.
Mótmælin hófust sem fyrr segir vegna frumvarpsins en kröfur mótmælenda hafa orðið fleiri og kalla þeir nú á víðtækari lýðræðisumbætur.
Í gær var hljóðupptöku lekið þar sem heyra má Carrie Lam segja að hún myndi hætta sem ríkisstjóri ef hún gæti og að hún óttaðist að hún hefði nú orðið mjög takmarkað vald til að finna lausn á þeirri stöðu sem komin er upp.
Reuters-fréttaveitan fjallaði um málið og segir að Lam hafi sagst hafa valdið „ófyrirgefanlegu tjóni“. Lam hafi á fundi sem haldinn var fyrir luktum dyrum með hópi kaupsýslumanna greint frá því að hún hafi nú „mjög takmarkað“ vald til að leysa deiluna þar sem stjórnvöld á meginlandi Kína líti nú svo á að mótmælin séu orðin þjóðaröryggis- og fullveldisvandi fyrir Kína, ekki síst í ljósi vaxandi spennu í samskiptum Kína og Bandaríkjanna.
Í kjölfar loforðs Carrie Lam um að draga frumvarpið til baka að fullu hafa aktívistar í Hong Kong gagnrýnt hana og sagt að aðgerðir Lam „séu of litlar og komi of seint“.
Þess er krafist að Lam taki allar fimm kröfur mótmælenda til greina en þær eru að ekki verði réttað yfir handteknum mótmælendum, að hætt verði að kalla mótmælendur óeirðaseggi, rannsókn fari fram á aðgerðum lögreglumanna í mótmælunum og að frjálsar kosningar fari fram í Hong Kong.
Það má því búast við því að mótmælin í Hong Kong muni ekki bara halda áfram heldur halda áfram að aukast.