Segir vinnslu erlendis hafa reynst vel

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, segi best að vinna afla …
Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, segi best að vinna afla sem hér er landað sem mest hér á landi. En að sumt er þess eðlis að það þarf að vinnast sem næst markaðnum Ljósmynd/Iceland Seafood International

„Við höfum borið gæfu til þess að vinna með góðum og öflugum framleiðendum á Íslandi og það er auðvitað grunnurinn að okkar starfsemi. Því til viðbótar hefur stefna undanfarinna ára gengið út á það að fjárfesta í fullvinnslueiningum nálægt mörkuðunum. Það hefur skilað sér,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, meðal annars í viðtali við 200 mílur sem birt var í Viðskiptamogganum í dag.

Fyrirtækið rekur sjö verksmiðjur og hefur 600 starfsmenn utan Íslands. „Við sjáum að þessi samþætting sem er í því að hafa öfluga eigendur og framleiðendur – sem sagt útgerðir hér á landi og fjárfesta í fullvinnslueiningum alþjóðlega – þetta styður mjög vel hvort við annað,“ segir hann.

Spurður hvort það sé framtíðin að vinnsla færist í síauknum mæli úr landi og nær mörkuðum kveðst Bjarni ekki ætla að gerast spámaður í þeim efnum. „Þetta er eins og annað í stöðugu endurmati og eins og við höfum séð á undanförnum árum hefur tekist að búa til miklu meiri verðmæti úr þeim afla sem hér kemur úr sjó, meðal annars með því að vinna uppsjávarfisk til manneldis og með stórbættri aflameðferð.

Best er að vinna þann afla sem hér er landað sem mest hér á landi. Það gefur augaleið. En sumt er þess eðlis að það þarf að vinnast sem næst markaðnum,“ bætir Bjarni við.

Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

mbl.is