Kópavogsbær hefur opnað samráðsgátt fyrir íbúa um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í samráðsgáttinni er hægt að koma á framfæri ábendingum um áherslur við innleiðingu á hverju markmiði fyrir sig.
„Þátttaka íbúa við innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er mikilvægur þáttur í því að innleiðing markmiðanna takist vel. Við höfum verið að auka áherslu á íbúasamráð og þátttöku almennings og er samráðsgáttin liður í því,“ er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs í fréttatilkynningu.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti haustið 2018 að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í nýrri stefnu bæjarins. Stefnan samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn og gildum auk yfirmarkmiða úr heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Er Kópavogur fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með formlegum hætti.
Markmiðið með stefnunni er að tryggja lífsgæði íbúa Kópavogs og taka um leið þátt í átaki þjóða heims um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.