1.400 létust í hitabylgjunni í Frakklandi

Buzyn segir það varúðarráðstöfunum að þakka að dauðsföll væru þó …
Buzyn segir það varúðarráðstöfunum að þakka að dauðsföll væru þó tíu sinnum færri en árið 2003. AFP

Hita­met­in féllu hvert af öðru í Frakklandi og víðar á meg­in­landi Evr­ópu í sum­ar. Heil­brigðisráðherra Frakk­lands til­kynnti í dag að 1.435 dauðsföll hefðu verið rak­in til hita­bylgj­unn­ar.

Þetta kom fram í máli Agnés Buzyn í út­varps­viðtali í dag, en helm­ing­ur þeirra sem lét­ust var yfir 75 ára að aldri.

Buzyn sagði það varúðarráðstöf­un­um að þakka að dauðsföll væru þó tíu sinn­um færri en þegar hita­bylgja af þess­um skala gekk yfir árið 2003 þegar á ann­an tug þúsunda Frakka lést.

Hit­inn fór mest upp í 46 stig í Frakklandi í júní og þá var hita­met Par­ís­ar slegið í júlí þegar hiti fór í 42,6 stig. Munu 567 hafa lát­ist í fyrri hita­bylgj­unni sem reið yfir í lok júní og fram í byrj­un júlí, og 868 í þeirri síðari, sem stóð frá 21. til 27. júlí.

Frétt BBC

mbl.is