Það telst til tíðinda þegar Orgelkvartettinn Apparat lætur að sér kveða en í dag gefur sveitin út lagið Alfa Partý í tilefni af 20 ára afmæli sveitarinnar. Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar fóru einmitt fram hinn 9. september 1999 í Tjarnarbíói.
Sveitin goðsagnakennda hefur gefið út tvær plötur en sú síðari, Pólýfónía, kom út fyrir níu árum. Laginu er lýst sem „laufléttum samkvæmissmelli“ og fylgir honum nýtt dansspor sem kvartettinn hefur verið að þróa. Dansinn verður kynntur tónleikagestum í Danmörku á tónleikum í Kaupmannahöfn um næstu helgi, 13. september, á tónleikastðanum Alice og 14. september í Pumpehuset en það er danska útgáfan Crunchy Frog sem gefur út.
Stefnan er svo sett á að halda tónleika fyrir íslenska tónlistarunnendur og gleðja þá með orgelleik og dansi á næstunni.
mbl.is óskar Apparatinu til hamingju með afmælið.