Bíllausi dagurinn var haldinn hátíðlegur í dag. Þátttakendur gengu og hjóluðu á Miklubraut að Lækjartorgi, auk þess sem frítt er í strætó í tilefni dagsins. Lækjargata var lokuð til klukkan 17 í dag og dagskrá á vegum Bíllausa dagsins.
„Við eigum ekki bíl og hjólum það sem við þurfum að fara. Lifum bíllausum lífsstíl og viljum að fleiri geri það,“ segir Júlía Björnsdóttir í samtali við mbl.is. Hún tók þátt með Þóri Ingvarssyni og segjast þau ekki láta rigninguna aftra sér. „Hún er bara hressandi.“
„Það er mjög mikilvægt að sýna samstöðu og tengja sig við fleiri borgir, þetta er alþjóðleg hreyfing,“ segir Júlía, en bíllausi dagurinn gengur í garð um leið og evrópsku samgönguvikunni lýkur. Dagurinn er haldinn hátíðlegur í fleiri borgum í dag.
„Ég er mikil aðdáandi skipulagðrar dagskráar og hópeflis,“ svarar Sigurður Unnar Birgisson er hann er spurður hvað hafi hvatt hann til þátttöku í dag. Spurður hvort bíllaus lífsstíll hafi ekki einnig haft áhrif á ákvörðunina segir hann svo vera. „Jú það er líka bíllausi lífsstíllinn, en það hefur með fagurfræðilegar ástæður að gera.
Fyrir mig mig persónulega finnst mér notalegt að hjóla í svona stórum hópi og notalegt að finna að ég tilheyri heild,“ segir hann.
Fjöldi fólks tók þátt í skrúðgöngu vegna bíllausa dagsins, en þó eru margir sem ekki hafa valið þennan samgöngumáta ef marka má erfiðleika blaðamanns við að finna bílastæði í miðborginni þegar hann bar að garði í dag.
Að lokinni göngu var haldinn fundur á Lækjartorgi. Þar ávarpaði meðal annars Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hópinn. Lýsti hann mikilvægi bíllauss lífsstíls og annarra aðgerða í þágu umhverfisins. Baðst hann þó afsökunar á því að vera sjálfur með bílstjóra.
Umhverfisráðherra var þó ekki einn um að biðjast velvirðingar á bílanotkun sinni í dag. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í færslu á Facebook í dag að bíllausi dagurinn væri „ágætis áminning um nauðsyn þess að efla almenningssamgöngur og huga að umhverfisvænum lífsstíl. En samt munu einhverjir sjá mig á bíl í dag ef að líkum lætur; að komast með fjölskylduna með strætó á þá viðburði sem fyrir liggja um borg og bý væri miklum erfiðleikum bundið, vægast sagt. Öfgar og sýndarmennska munu aldrei þoka okkur í rétta átt“.