Ást er ný heimildaþáttaröð sem fjallar um ást og ástarsambönd. Leikstjóri þáttanna er Haukur Björgvinsson en í fjórða þætti er ástarsambönd og samfélagsmiðlar í forgrunni.
Hver eru áhrif stöðugrar skjánotkunar á samfélagið? Fólk er sítengt en samt eyðir það minni og minni tíma saman. Þegar fólk er saman er það oft andlega fjarverandi að skoða hvað er að gerast í gerviheimi samfélagsmiðla. Hvaða áhrif hefur „glansmynd“ eða tilbúinn veruleiki annarra para á fólk? Hvernig eigum við að nálgast samfélagsmiðla þegar kemur að ástarsamböndum? Hvar liggja mörkin í sambandinu og höfum við tilkallsrétt til að spyrja maka um það hvað fer þar fram eða jafnvel fá aðgang að þessum miðlum.
Kristborg Bóel Steindórsdóttir og Kolbrún Pálína Helgadóttir unnu hugmyndavinnu þáttanna sem eru framleiddir hjá Sagafilm. Öll serían, eða samtals sjö þættir, verða fáanlegir í Sjónvarpi Símans Premium á morgun.