Sjávarútvegur mikilvægur þáttur stöðugleika

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði sjávarútveginn hafa mikilvægu hlutverki að gegna …
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði sjávarútveginn hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þágu stöðugleika. mbl.is/Gunnlaugur

„Við sjáum á þessu ári að sjávarútvegurinn sé nú mikilvægur þáttur stöðugleika,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á ráðstefnunni sjávarútvegsdagurinn í Silfurbergi í Hörpu í dag. Benti hann á að sjávarútvegurinn hefði vegið á móti efnahagshruninu 2008 og að hann væri nú að vega á móti samdrætti í ferðamannaiðnaðinum.

Kom fram í ræðu Ásgeirs að sjávarútvegurinn var til margra ára viðmið peningastefnunnar. Þá hefði gengi krónunnar verið fellt þegar tap var í greininni og að verðbólga hefði fylgt því þegar hann var rekinn með hagnaði.

Hins vegar hafi gengið ekki verið fellt vegna stöðu sjávarútvegsins síðan 1993 og hefur kvótakerfið skilað auknum stöðugleika í greininni, að sögn seðlabankastjóra. „Útgerðarmenn bíða ekki eftir gengisfellingum til þess að rétta rekstrarreikninginn,“ sagði hann og fullyrti að sjávarútvegurinn væri vel í stakk búinn til þess að takast á við gengisbreytingar.

mbl.is/Gunnlaugur

Um árabil var sjávarútvegurinn sér á báti meðal atvinnugreina þar sem hann hafði verið í alþjóðlegri samkeppni sem haði gert það að verkum að hann hafði ekki getað fært aukinn rekstrarkostnað yfir í verðlagið eins og aðrar atvinnugreinar. Þá hefðu orðið ákveðin kaflaskil í íslensku hagkerfi þar sem slík staða varðaði nú mun fleiri atvinnugreinar, sem er líkleg skýring þess að aukinn launakostnaður hafi ekki haft mikil áhrif á verðlag, að sögn Ásgeirs.

mbl.is