300 milljóna króna samningur í Rússlandi

Skaginn mun annast uppsetningu á saltfiskvinnslu í Múrmansk í Rússlandi.
Skaginn mun annast uppsetningu á saltfiskvinnslu í Múrmansk í Rússlandi. Ljósmynd/Aðsend

Skaginn 3X hefur skrifað undir samning við rússneska fyrirtækið Polar Sea+, sem er í eigu útgerðarrisans Norebo. Samningurinn felur í sér smíði og uppsetningu á saltfiskvinnslu í Murmansk í Rússlandi og er verðmæti verkefnisins 2,3 milljónir evra að jafnvirði rúmlega 300 milljónum íslenskra króna.

„Þetta verður stærsta saltfiskframleiðsla sinnar tegundar í norður Atlantshafi með framleiðslugetu allt að 50 tonn á dag,“ segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri Skagans 3X í Rússlandi.

Áætlað er að uppsetning hefjist í byrjun næsta árs. „Búnaðurinn er hannaður með gæði og góða meðhöndlun hráefnis að leiðarljósi, þar sem fyrirtækið ætlar sér að flytja út hágæða vöru inn kröfuharða markaði í Suður-Evrópu, Suður-Ameríku og Afríku,“ að því er segir í fréttatilkynningu frá Skaganum 3X.

Skaginn 3X hefur einnig komið að uppsjávarverksmiðju útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins …
Skaginn 3X hefur einnig komið að uppsjávarverksmiðju útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Gidrostroy í Rússlandi. Ljósmynd/Skaginn 3X

Lausnin samanstendur af RoteX Supreme-uppþýðingarkerfi, snyrtilínu, pækilblöndun og þurrsöltun, að því er fram kemur í tilkynningunni. Þar segir einnig að kerfið uppfyllir nútíma kröfur þegar horft er til vinnuaðstæðna og öryggis starfsmanna. Þá sparar það orku og vatn og stuðlar að aukinni nýtingu.

„Polar Sea+ hafði samband við okkur í leit sinni að nútímalausnum sem myndu standa undir þessari miklu framleiðslugetu sem um ræðir. Okkar svar var að hanna heildarlausn þar sem gæði og gott flæði framleiðslunnar væru í aðalhlutverki,“ segir Pétur.

Þetta er ekki fyrsta verkefnið sem Skaginn 3X vinnur fyrir Polar Sea+ því áður hafa fyrirtækin unnið saman að hvítfiskverksmiðju sem í Murmansk. Verksmiðjan framleiðir hinar ýmsu tegundir af bæði ferskum og frosnum hágæða afurðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: