Fjölmargir tóku þátt í síðasta degi allsherjarverkfalls fyrir loftslagið á Austurvelli í hádeginu en síðustu vikuna hefur verið staðið fyrir alþjóðlegu allsherjarverkfalli í fjölmörgum löndum.
Alþjóðleg loftslagsvika, tileinkuð baráttu gegn loftslagsvánni, hófst síðasta föstudag þegar fólk gekk fylktu liði frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll.
Talið er að mótmælendur hafi komið saman í um 150 löndum og að fjölmennustu mótmælin hafi verið í New York; þar sem yfir milljón nemendur við 1.800 skóla tóku þátt.
Í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum kemur fram að það muni kosta okkur mun meira að gera ekkert, að stöðva ekki hlýnunina strax, en að bregðast við afleiðingunum síðar.
Án markvissra og áhrifaríkra aðgerða mun árlegur kostnaður neyðaraðstoðar vegna hamfara margfaldast. Svartsýnustu spár áætla 20 milljarða bandaríkjadollara árið 2030 (um 2.500 milljarðar íslenskra króna) og að um 200 milljón manns muni þurfa á mannúðaraðstoð að halda vegna loftslagsbreytinga árið 2050.