Samgöngusáttmáli í mótsögn við markmið

Björn hefði viljað sjá meira fjármagni varið í hjólastíga. Myndin …
Björn hefði viljað sjá meira fjármagni varið í hjólastíga. Myndin er frá bíllausa deginum sem Samtök um bíllausan lífsstíl stóðu að. Haraldur Jónasson/Hari

Björn H. Sveins­son, formaður Sam­taka um bíl­laus­an lífs­stíl, seg­ir um­ferðarsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar og sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu í mót­sögn við fyrri yf­ir­lýs­ing­ar og mark­mið yf­ir­valda. Þrátt fyr­ir að mikið fjár­magn sé lagt í al­menn­ings­sam­göng­ur, hjóla- og göngu­stíga, ef­ast Björn um að aðgerðirn­ar muni fá fleiri til að leggja bíln­um. 

„Rík­is­stjórn­in og for­sæt­is­ráðherra hafa sagt að við þurf­um að minnka um­ferð og út­blást­ur og annað slíkt en aðgerðir eins og breikk­un vega og Mikla­braut í stokk eru mjög lík­lega til þess falln­ar að valda auk­inni um­ferð,“ seg­ir Björn. 

Hann fagn­ar þó sam­komu­lag­inu og seg­ir ým­is­legt já­kvætt í því. „Það er al­veg ástæða til bjart­sýni. Það eru mjög flott­ar aðgerðir þarna áætlaðar á næstu fimmtán árum sem hafa áður verið áætlaðar á lengri tíma eins og til dæm­is bygg­ing borg­ar­línu. Það er mjög já­kvætt að verið sé að setja gott trukk í það.“

Hjóla­stíg­ar gætu hjálpað mörg­um hratt

Björn seg­ir að hann hefði viljað sjá meira gert fyr­ir hjól­reiðafólk og að hjóla­stíg­ar hefðu átt að vera sett­ir í for­gang. 

„Það er gert nokkuð vel við al­menn­ings­sam­göng­ur í þess­um pakka en ég væri til í að sjá meira fara í upp­bygg­ingu hjóla­stíga. Til hjóla- og göngu­stíga renn­ur sirka jafn há upp­hæð og á að fara í ljós­a­stýr­ing­ar. Hjóla­stíg­ar eru til dæm­is eitt­hvað sem er hægt að byggja mjög hratt upp og eru ein­fald­ir í fram­kvæmd. Þeir hjálpa gríðarlega mörg­um mjög hratt miðað við aðrar aðgerðir.“

Fyrr í dag sagði Dag­ur B. Eggerts­son, borg­ar­stjóri að gerð hjól­reiðastíga væri of­ar­lega á blaði í sátt­mál­an­um. 

Ólík­legt að fólk muni leggja bíln­um 

Gert er ráð fyr­ir að 52,2 millj­arðar fari í stofn­vegi, 49,6 millj­arðar í innviði borg­ar­línu og al­menn­ings­sam­göng­ur, 8,2 millj­arðar í göngu- og hjóla­stíga, göngu­brýr og und­ir­göng og 7,2 millj­arðar í bætta um­ferðar­stýr­ingu og sér­tæk­ar ör­yggisaðgerðir.

Spurður hvort hann sé bjart­sýnn á að marg­ir muni leggja einka­bíln­um vegna aðgerðanna seg­ir Björn:

„Það sem ork­ar svo­lítið tví­mæl­is er að við vilj­um breyta ferðavenj­um og rík­is­stjórn­in hef­ur sagt það en ætl­ar aft­ur á móti líka að auðvelda fólki að keyra. Það er það sem gæti gert það að verk­um að þetta gangi ekki jafn vel og von­ast er til. Þegar nýtt fólk kem­ur inn í um­ferðina þá er lík­legt að það kjósi einka­bíl­inn ef það er enn þá auðveld­ara og skil­virk­ara.“

Umræða hef­ur verið um það að sátt­mál­inn verði að stór­um hluta fjár­magnaður með veg­gjöld­um Björn seg­ir önn­ur gjöld væn­legri en veg­gjöld. Hann er frek­ar fylgj­andi því að virðis­auka­skatt­ur sé sett­ur aft­ur á raf­bíla en að veg­gjöld­um sé komið á.

„Þó að raf­bíl­ar séu skárri en venju­leg­ir bíl­ar þá auka þeir samt um­ferð og hafa marg­vís­leg skaðleg áhrif á heilsu í för með sér,“ seg­ir Björn.

mbl.is