Segja Gretu Thunberg „truflaðan messías“

Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er ósátt með þá sem sýna henni …
Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er ósátt með þá sem sýna henni vanvirðingu. AFP

„Þeir sem vilja mér illt hafa aldrei verið jafn virk­ir,“ sagði sænski aðgerðarsinn­inn Greta Thun­berg á Twitter í vik­unni. 

„Þeir ráðast að mér, út­liti mínu, fatnaði, hegðun og því sem ger­ir mig ólíka öðrum,“ sagði Greta og bætti því við að þess­ir ein­stak­ling­ar töluðu um hvað sem væri í stað þess að tala um lofts­lags­vána. 

Þess­ir aðilar hafa þó ekki staðið í vegi fyr­ir henni. Síðastliðinn föstu­dag leiddi hún annað lofts­lags­verk­fall í Montreal í Kan­ada. Þar krafðist hún alþjóðlegra aðgerða sem myndu miða að því að minnka kol­efn­is­fót­spor mann­kyns­ins. 

Á Twitter var hún þó aug­ljós­lega mjög pirruð á því hvernig fólk gagn­rýndi hana og sakaði fólk um að „fara yfir öll mörk til að beina at­hylg­inni frá lofts­lags­mál­um“ með því sem hún kall­ar lyg­ar og sam­særis­kenn­ing­ar. 

Hló að Trump

Don­ald Trump, Banda­ríkja­for­seti, er lík­lega einn valda­mesti maður­inn sem hef­ur gert grín að Thun­berg en hann virt­ist hæðast að henni þegar hann setti færslu á Twitter þar sem hann sagði Thun­berg „ham­ingju­sama unga stelpu sem horfði bjart­sýn til ynd­is­legr­ar framtíðar“.

Thun­berg hló að um­mæl­um hans í viðtali við sænsku sjón­varps­stöðina SVT og sagði „ég vissi að hann myndi segja eitt­hvað um mig“. 

Ýmsir hafa þó sett fram meira móðgandi um­mæli en Trump og BBC tók sam­an nokk­ur af þeim verstu. 

Breska dag­blaðið The Sun hef­ur sagt að Thun­berg sé stjórnað af ork­uris­um og ýtn­um frægðarþyrst­um for­eldr­um. Í grein dag­blaðsins er sér­stak­lega tekið fram að móðir Thun­berg hafi eitt sinn tekið þátt í Eurovisi­on og að hún vilji enn meiri frægð. 

Átrúnaðargoð með geðrask­an­ir

Ástr­alskt dag­blað sagði Thun­berg „virki­lega truflaðan mess­ías um­hverf­is­hreyf­ing­ar­inn­ar.“

„Ég hef aldrei séð stúlku sem er svo ung og með svo marg­ar geðrask­an­ir sem svo marg­ir full­orðnir ein­stak­ling­ar koma fram við sem átrúnaðargoð,“ sagði dálka­höf­und­ur­inn Andrew Bolt í dag­blaðið Her­ald Sun

mbl.is

Bloggað um frétt­ina