Tveir japanskir ferðamenn greiddu sem nemur rúmum 57 þúsund íslenskum krónum á veitingastað í Róm á Ítalíu fyrir tvo pastarétti og fisk. Þeim brá í brún þegar þau fengu reikninginn, enda töldu þau sig ekki hafa pantað svo dýran mat.
Hjónin pöntuðu tvo pastarétti, fisk og tvö vatnsglös. Þau greiddu reikninginn en kvörtuðu yfir honum á Trip Advisor. Umsögnin fékk fljótlega mikla athygli og lokaði Trip Advisor fyrir umsagnir hjá veitingastaðnum í kjölfarið þar sem neikvæðar umsagnir hlóðust inn.
Fleiri sögðu sömu sögu af veitingastaðnum en ástæðan af hverju ferðamennirnir fengu svimandi háan reikning er sú að verðið á matseðlinum var ruglandi. Upp var gefið hversu mikið 100 grömm af fisknum kostuðu. Það hefði ekki verið tekið nógu skýrt fram og því margir lent í því að panta sér fiskinn í góðri trú um að verðið sem upp væri gefið væri fyrir allan skammtinn.
Eigandi veitingastaðarins hefur tjáð sig í ítölskum fjölmiðlum og sagt að það hafi verið tekið skýrt fram að verðið væri fyrir hver 100 grömm af fiski. Sambærileg mál hafa komið upp í Róm á síðustu mánuðum þar sem ferðamönnum er gert að greiða á veitingastöðum háa reikninga sem þeir skilja ekkert í.
Lögreglan í Róm hefur hafið rannsókn á málinu og skoðar nú sambærileg mál þar sem verð á matseðlum er óskýrt og ferðamenn hafa greitt um of fyrir mat.