Gærdagurinn, þegar Kínverjar fögnuðu 70 ára afmæli alþýðulýðveldisins, var einn sá átakamesti og ofbeldisfyllsti í sögu Hong Kong. Þetta er mat lögreglustjórans í borginni.
18 ára mótmælandi var skotinn í bringuna í mótmælum gærdagsins og er þetta í fyrsta sinn sem mótmælandi er skotinn frá því að regluleg mótmæli brutust út í borginni fyrir rúmum fjórum mánuðum.
Lögregla hafði áður beitt skotvopnum í tilraunum til þess að hafa hemil á mótmælendum en byssu hafði aldrei verið miðað beint að mótmælendum fyrr en í gær og hefur atvikið enn aukið á reiði mótmælenda.
Hluti mótmælenda beitti stöngum, bensínsprengjum og öðrum kasthlutum í átökum við lögreglu í gær sem handtók alls 269 manns. Aldrei hafi fleiri verið handteknir í mótmælum í borginni á einum degi. Hinir handteknu eru á aldrinum 12 til 71 árs.
Yfir 100 manns voru fluttir á sjúkrahús vegna átakanna í gær og 30 manns eru slasaðir. Lögregla skaut 900 gúmmíkúlum á mótmælendur og beitti um 1.400 skömmtum af táragasi, samanborið við 1.000 skammta fyrstu tvo mánuðina sem mótmælin stóðu yfir.
96 manns voru færðir fyrir dómara í morgun, flestir nemendur, þar sem ákæra á hendur þeim var tekin fyrir sökum óeirða í mótmælunum í gær.
Uppaf mótmælanna má rekja til lagafrumvarps sem heimila átti framsal meintra brotamanna til meginlands Kína, en þróuðust síðan upp í ákall um auknar lýðræðisumbætur og að kínversk stjórnvöld létu borgina afskiptalausa.
Ekki hefur komið til átaka í dag en hundruð eru saman komin við skóla hins 18 ára gamla Tsang Chi-kin sem skotinn var af lögreglumanni í gær. „Mér er illt í bringunni, ég þarf að komast á sjúkrahús,“ sagði Chi-kin, sem var handtekinn eftir að hann var skotinn.
Ástand Tsang er að sögn yfirvalda stöðugt og hefur lögreglan afsakað sig með því að lögreglumaðurinn sem hleypti af hafi óttast um líf sitt, en myndskeið sýna Tsang leggja til hans með kylfu áður en hann var skotinn í bringuna.
Aðspurður af hverju mótmælandinn var skotinn af svo stuttu færi svaraði lögreglustjórinn Stephen Lo að lögreglumaðurinn gat ekki stjórnað fjarlægðinni á milli sín og mótmælandans.