Hong Kong jafnar sig nú eftir hörðustu átök lögreglu og mótmælenda, það sem af er fjögurra mánaða löngum mótmælum, í gær, á 70 ára afmæli alþýðulýðveldisins Kína.
Hundruð eru saman komin við skóla hins 18 ára gamla Tsang Chi-kin sem skotinn var í bringuna af lögreglumanni í mótmælunum í gær.
Lögregla hafði áður beitt skotvopnum í tilraunum til þess að hafa hemil á mótmælendum en byssu hafði aldrei verið miðað beint að mótmælendum fyrr en í gær og hefur atvikið enn aukið á reiði mótmælenda.
Ástand Tsang er að sögn yfirvalda stöðugt og hefur lögreglan afsakað sig með því að lögreglumaðurinn sem hleypti af hafi óttast um líf sitt, en myndskeið sýna Tsang leggja til hans með kylfu áður en hann var skotinn í bringuna.