Mótmælafroskurinn Pepe hefur hingað til verið tákn þeirra stjórnmálaflokka og skoðana sem eru lengst til hægri á Vesturlöndum. en hann hefur nú fengið nýtt hlutverk í mótmælunum í Hong Kong þar sem hann er orðinn tákngervingur ákalls um lýðræðisumbætur.
Mótmælin í Hong Kong hafa stigmagnast í þá rúmlega 100 daga sem þau hafa staðið yfir. Upphaf þeirra má rekja til lagafrumvarps sem heimila átti framsal meintra brotamanna til meginlands Kína. Þau þróuðust síðan í ákall um auknar lýðræðisumbætur og að kínversk stjórnvöld létu sjálfsstjórnarborgina afskiptalausa. Yfir 1.300 manns hafa verið handteknir frá því að mótmælin hófust.
Undanfarna daga hefur sífellt meira borið á Pepe og síðastliðinn mánudag báru mörg hundruð manns tuskubrúðu í líki frosksins þar sem þeir gengu fylktu liði í mótmælunum. „Hann er tákn um hatur í Bandaríkjunum, en hann hefur endurfæðst hér í Hong Kong sem tákn ástar og frelsis,“ sagði 21 árs gamall mótmælandi, sem kom fram undir dulnefninu Phoenix, í samtali við AFP-fréttastofuna.
Pepe er hugarfóstur bandaríska listamannsins Matt Furie og kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2005 sem „froskagaur“. Hann náði fljótlega talsverðri hylli og stuðningsmenn Donalds Trump tóku froskinn síðan upp á arma sér í undanfara forsetakosninganna 2016 og gerðu þeir Pepe að talsmanni hægrisinnaðra stjórnmálaviðhorfa.
Furie þóknaðist ekki þessi viðsnúningur hugarfóstur síns og lýsti froskinn opinberlega dauðann árið 2017. Spurnir af þessum hægrisinnuðu stjórnmálaskoðunum Pepes náðu aldrei til Kína og Hong Kong og þar var hann einfaldlega þekktur sem „Sorgmæddi froskurinn“ þar til hann varð táknmynd mótmælanna sem nú standa yfir í Hong Kong.