Íslenskt landslag er innblásturinn að stóru verkefni sem enski tónlistarmaðurinn og Íslandsvinurinn Damon Albarn er með í vinnslu og mun flytja á tónleikum næsta vor. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn munu gera myndefni sem sýnt verður á tónleikunum.
Því nær upptökunum, því tærari flæðir lindin. Þannig mætti þýða yfirskrift verkefnisins sem var kynnt á facebook-síðu tónlistarmannsins í gær. Á ensku er hún: „The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows,“ sem er tilvísun í ljóðið Love and memory eftir John Clare.
Tónlistin verður persónuleg blanda af raftónlist, rödd, píanó og strengjasveit kemur einnig við sögu en nánari útfærsla hefur ekki verið gefin upp. Í tilkynningunni kemur fram að tónleikaröðin fari á milli borga í Evrópu og að á tónleikunum í Barbican í London muni André de Ridder stýra strengjasveitinni.
Í tilkynningu á vef framleiðlsufyrirtækisins Rain Dog kemur fram að Albarn hafi heimsótt landið reglulega í nærfellt þrjá áratugi og að: „Land miðnætursólarinnar sé einstakt og búi yfir mikilli náttúrufegurð. Jöklum, eldfjöllum, hverum, fjöllum og ægifögrum björgum.
Landið hvíli á evrópsku og amerísku flekaskilunum. Þannig endurspegli það framrás tímans og viðkvæma náttúru.“
Albarn hefur komið víða við á löngum ferli. Fyrst með hinni geysivinsælu popp/rokksveit Blur en eftir það með Gorillaz og The Good, The Bad & The Queen. Auk þess fékk hann mikið lof fyrir tónlistina sem hann gerði með vestur afrískum tónlistarmönnum skömmu eftir aldamót. Það má því búast við að verkefnið verði metnaðarfullt og tilkomumikið.
Með facebook-færslunni fylgir mynd sem virðist tekin frá húsinu sem Albarn byggði í Grafarvogi.