Starfsmaður flugfélagsins Delta á JFK-flugvellinum í New York var gripinn glóðvolgur í öryggismyndavélakerfi við að stela tösku. Maðurinn sem heitir Quincy Thorpe var handtekinn í lok september. Þjófurinn tók ekki töskuna af handahófi enda var óvenjuhá peningaupphæð í töskunni.
Fram kemur á vef CNN að um 250 þúsund Bandaríkjadalir í reiðufé hafi verið í töskunni eða rúmlega 30 milljónir. Nú kann einhver að spyrja sig hver innriti eiginlega tösku með mörgum milljónum í. Svarið við þeirri spurningu fylgir ekki sögunni. Thorpe þessi átti að koma átta töskum fyrir en þegar vélin lenti í Miami voru töskurnar aðeins sjö.