Aukin umsvif hjá Skagafjarðarhöfnum

Sauðárkrókshöfn.
Sauðárkrókshöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikil aukning hefur verið í umsvifum hjá Skagafjarðarhöfnum síðustu fjögur ár. Ef fram fer sem horfir stefnir í að landaður afli verði um 30 þúsund tonn í ár samanborið við rúmlega 25 þúsund tonn árið 2018.

Frá árinu 2016 hefur heildarafli í Sauðárkrókshöfn aukist að meðaltali um 20% milli ára. Fisk Seafood og Dögun eiga heimahöfn á Sauðárkróki ásamt því að smábátar frá Sauðárkróki og Hofsósi  eru með reglulegar landanir. Síðastliðið ár hafa skip frá öðrum stórum útgerðum landað á Sauðárkróki sem aukið hefur umsvifin. Reglulegar strandsiglingar eru í Skagafjörð og eru skip Samskipa og Eimskipa með áætlunarsiglingar í Sauðárkrókshöfn. Nærri 80 flutningaskip koma árlega í Skagafjörð.

Dagur Þór Baldvinsson hafnarstjóri Skagafjarðarhafna segist í tilkynningu ánægður með uppganginn „Það er búið að vera líflegt hér á höfninni síðustu ár. Fiskmarkaður Íslands opnaði útibú á Sauðárkróki fyrir ári síðan og höfum við séð aukningu í komu skipa frá öðrum stórum útgerðum sem landa ýmist til eigin vinnslu eða beint á markað. Einnig er Fiskmarkaður Snæfellsbæjar starfandi á Sauðárkróki. Staðsetning Skagafjarðar skiptir miklu máli þar sem fiskgengd út af Norðurlandi hefur aukist og stutt er að keyra fiskinn til kaupenda.“

Fyrstu skemmtiferðaskipin

Samhliða aukningu skemmtiferðaskipa til Íslands hefur áhugi á nýjum áfangastöðum aukist. Sauðárkrókshöfn hefur notið góðs af því og þegar hafa 10 skemmtiferðaskip boðað komu sína næstu þrjú ár til Skagafjarðar og fyrstu skemmtiferðaskipin koma til Sauðárkróks næsta sumar. Ferðamenn skemmtiferðaskipa munu þá setja svip sinn á bæjarlífið.

„Við höfum verið lengi í viðræðum að fá hingað skemmtiferðaskip og það er loksins að skila árangri. Þegar er búið að bóka 10 skip næstu 3 árin og fleiri eru í viðræðum um að koma. Minnstu skipin munu leggjast upp að bryggju en ferja þarf farþega stærri skemmtiferðaskipa í land með léttabátum,“ segir Dagur Þór.

Nýtt deiliskipulag fyrir Sauðárkrókshöfn

Vegna aukinna umsvifa við höfnina á Sauðárkróki og með komu stærri skipa eins og skemmtiferðaskipa hefur Sveitarfélagið Skagafjörður hafið vinnu ásamt hagsmunaaðilum við nýtt deiliskipulag fyrir hafnarsvæðið á Sauðárkróki. Núverandi hafnaraðstaða er þröng og því þörf á að stækka hafnarsvæðið til að bæta aðgengi.

Dagur Baldvinsson hafnarstjóri.
Dagur Baldvinsson hafnarstjóri.
Drangey, togari Fisk Seafood, í höfn á Sauðárkróki.
Drangey, togari Fisk Seafood, í höfn á Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi
Höfnin á Hofsósi.
Höfnin á Hofsósi. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is