Grímuklæddir mótmælendur gengu um götur Hong Kong í dag og virtu þannig að vettugi bann stjórnvalda við því að hylja andlit sitt. Mikið öngþveiti ríkir í borgríkinu, neðanjarðarlestakerfinu sem fjórar milljónir ferðast með að jafnaði daglega hefur verið lokað og verslunareigendur hafa lokað verslunum sínum af ótta við skemmdarverk.
Grímubannið er hluti af neyðarlögum Carrie Lam, ríkisstjóra Hong Kong og átti það að draga úr mótmælunum. Það hefur haft þveröfug áhrif, í dag hafa mörg þúsund manns mótmælt víða um Hong Kong. Fólkið myndaði keðjur, hrópaði slagorð og söng baráttusöngva.
„Grímubannið er bara fyrsta skrefið,“ sagði Hosun Lee einn mótmælendanna í samtali við AFP-fréttastofuna og bætti við að hann óttaðist að fleiri lög, sem reyndu að stemma stigu við mótmælunum, yrðu sett.
Mótmæli hafa staðið yfir reglulega í Hong Kong síðan snemma í júní og hefur ofbeldi færst í aukana undanfarið. Upphaf þeirra má rekja til lagafrumvarps sem heimila átti framsal meintra brotamanna til meginlands Kína. Þau þróuðust síðan í ákall um auknar lýðræðisumbætur og að kínversk stjórnvöld létu sjálfsstjórnarborgina afskiptalausa.