Lögreglan í Hong Kong beitti táragasi gegn grímuklæddum mótmælendum í morgun eftir að tugþúsundir fólks fóru út á götur borgríkisins til að mótmæla grímubanni yfirvalda sem er hluti neyðarlaga sem sett voru í fyrradag. Óöld ríkir á staðnum, að sögn erlendra fréttaveitna.
Um helmingur allra neðanjarðarlestastöðva í Hong Kong er nú lokaður og verslanir eru víða lokaðar.
Fólkið safnaðist saman sitt hvorum megin við Viktoríuhöfn og hlóð þar upp virkjum og lokaði götum fyrir umferð. Átök brutust fljótlega út þegar lögreglan beitti táragasi.
Mótmæli hafa staðið yfir reglulega í Hong Kong síðan snemma í júní og hefur ofbeldi færst í aukana undanfarið. Upphaf þeirra má rekja til lagafrumvarps sem heimila átti framsal meintra brotamanna til meginlands Kína. Þau þróuðust síðan í ákall um auknar lýðræðisumbætur og að kínversk stjórnvöld létu sjálfsstjórnarborgina afskiptalausa. Mótmælin náðu nýjum hæðum á mánudaginn, þegar 70 ára afmæli alþýðulýðveldisins Kína var fagnað síðastliðinn mánudag.
Sú ákvörðun Carrie Lam, ríkisstjóra í Hong Kong, að setja neyðarlög hefur ekki verið til þess fallið að lægja öldurnar, en það felur m.a. í sér að henni er heimilt að setja nánast hvaða lög sem er, þar á meðal bann við því að hylja andlit sitt á almannafæri. Hún hefur sagst reiðubúin til að setja fleiri lög af þessu tagi, sjái hún ástæðu til þess.
„Við getum ekki leyft skemmdarvörgum að fara um og eyðileggja okkar elskuðu Hong Kong,“ sagði hún í yfirlýsingu í gær.
Í morgun freistuðu talsmenn mótmælenda því að fá neyðarlögunum hnekkt fyrir dómstól í borgríkinu, en málinu var vísað frá.