Árlegar viðræður strandríkja vegna veiða á makríl, norsk-íslenskri síld og kolmunna hófust í London höfuðborg Bretlands í dag. Viðræðurnar munu standa í um tvær vikur og var byrjað á því að ræða makríl á grundvelli ráðlegginga ICES um veiðar á stofninum fyrir árið 2020.
Í svari sjávarútvegsráðuneytisins við fyrirspurn 200 mílna segir að „á fundinum mun Ísland sækjast eftir því að strandríkin komi sér saman um stjórn veiðanna, enda þarf heildstæða stjórnun til að tryggja sjálfbærni þeirra“.
Í næstu viku verður rætt um kolmunna undir formennsku Íslands og um norsk-íslenska síld undir formennsku Færeyja. Þátttakendur í viðræðunum eru Ísland, Grænland, Færeyjar, Noregur, Rússland og Evrópusambandið sem fer með formennsku.