Þingmenn hrópuðu og kölluðu að Lam

Stjórnarandstöðuþingmenn hrópuðu og kyrjuðu pólitísk slagorð að Lam um leið …
Stjórnarandstöðuþingmenn hrópuðu og kyrjuðu pólitísk slagorð að Lam um leið og hún hóf að flytja ræðuna. Upptaka af ræðunni var á endanum sýnd í sjónvarpi. AFP

Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnar Hong Kong, neyddist til að hætta að flytja stefnuræðu heimastjórnarinnar á þinginu vegna óláta þingmanna. 

Stjórnarandstöðuþingmenn hrópuðu og kyrjuðu pólitísk slagorð að Lam um leið og hún hóf að flytja ræðuna. Upptaka af ræðunni var á endanum sýnd í sjónvarpi. 

Mót­mæli hafa staðið yfir reglu­lega í Hong Kong síðan snemma í júní og hef­ur of­beldi færst í auk­ana und­an­farið. Upp­haf ­þeirra má rekja til laga­frum­varps, sem kynnt var í apríl, sem heim­ila átti framsal meintra brota­manna til meg­in­lands Kína. Þau þróuðust síðan í ákall um aukn­ar lýðræðis­um­bæt­ur og að kín­versk stjórn­völd létu sjálfs­stjórn­ar­borg­ina af­skipta­lausa. 

Þetta er í fyrsta sinn sem þing heimastjórnarinnar kemur saman frá því í júlí og til stóð að draga frumvarpið til baka á þinginu í gær en ekkert varð úr því sökum óláta þingmanna. 

Stjórnarandstöðuþingmenn hrópuðu og kyrjuðu pólitísk slagorð að Lam um leið …
Stjórnarandstöðuþingmenn hrópuðu og kyrjuðu pólitísk slagorð að Lam um leið og hún hóf að flytja ræðuna. AFP

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hvatti í síðustu viku til þess að mannúðleg niðurstaða feng­ist í mál­in í Hong Kong. Í gærkvöldi samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings frumvarp sem snýr að því að vernda borgaraleg réttindi íbúa í Hong Kong en mótmælendur í borginni hafa hvatt Bandaríkjaþing til að veita sér aðstoð. 

Kínversk stjórnvöld lýstu vanþóknun og andstöðu við frumvarpið og báðu Bandaríkin að hætta að skipta sér af þeirra málefnum.

mbl.is