Stjórnvöld í Kína vilja skipta um leiðtoga í Hong Kong áður en kjörtímabili Carrie Lam lýkur en mikil ókyrrð hefur verið í Hong Kong síðustu mánuði. Samkvæmt heimildum Financial Times verður eftirmaðurinn ráðinn í mars og mun sitja út yfirstandandi kjörtímabil.
Þeir sem helst eru nefndir til sögunnar sem eftirmenn Lam eru tveir af fyrrverandi fjármálaráðherrum Hong Kong; Norman Chan og Henry Tang.
Sá síðarnefndi hefur látið hafa eftir sér að hann styðji núverandi leiðtoga og muni ekki tjá sig um vangaveltur.
Lam sagði í byrjun september að hún myndi hætta ef hún gæti.
„Hefði ég eitthvert val,“ sagði Lam, „þá væri það fyrsta sem ég myndi gera að segja af mér eftir að hafa beðist innilega afsökunar.“ Síðar sagðist hún aldrei hafa beðið kínversk stjórnvöld um að leyfa sér að segja af sér til að binda enda á erfiðleikana.