Karlmaður sem er grunaður um morð var í dag látinn laus úr fangelsi í Hong Kong. Mál mannsins leiddi til fjöldamótmæla í Hong Kong sem hafa staðið yfir frá því í byrjun júní.
Chan Tong-kai er sakaður um að hafa myrt ólétta kærustu sína í Taívan í fyrra áður en hann flúði til Hong Kong.
Framsalssamningur er ekki í gildi á milli Taívan og Hong Kong en Tong-kai dvaldi alls í 19 mánuði í fangelsi í Hong Kong vegna peningaþvættis.
Hann var látinn laus í dag og bað fjölskyldu kærustu sinnar afsökunar. Tong-kai sagðist vera tilbúinn að gefa sig fram við yfirvöld í Taívan.
Deilt hefur verið um hvernig Tong-kai á verða sóttur til saka í Taívan og samkvæmt frétt AFP er óvíst hver næstu skref í málinu eru.
Yfirvöld í Hong Kong segja að Tong-kai geti farið til Taívan og gefið sig fram við lögreglu þar. Yfirvöld í Taívan segjast hins vegar vilja gæta fyllsta öryggis og vilja fá Tong-kai í lögreglufylgd en það sætta yfirvöld í Hong Kong sig ekki við.
Hong Kong hefur gert framsalssamninga við 20 ríki, meðal annars Bretland og Bandaríkin, en enginn slíkur samningur er í gangi við Kína, þrátt fyrir viðræður þess efnis undanfarna tvo áratugi.
Frumvarpið sem mótmælt hefur verið í sumar hefði gert Hong Kong kleift að senda grunaða glæpamenn til staða sem það hefur ekki gert framsalssamninga við, líkt og Kína og Taívan.
Gagnrýnendur frumvarpsins segja að Hong Kong gæti með lögunum orðið berskjaldað gegn ófullkomnu réttarkerfi Kína og að það hefði slæm áhrif á réttarkerfi borgarinnar.
Búist er við því að frumvarpið verði formlega dregið til baka í dag en yfirvöld í Hong Kong greindu frá því í júlí að þau væru hætt við að leggja það fram.