Óvíst hvenær og hvernig Greta fer heim

Greta Thunberg hefur verið á ferð en ekki flugi undanfarna …
Greta Thunberg hefur verið á ferð en ekki flugi undanfarna daga og vikur. AFP

Óvíst er hvenær og hvernig aðgerðasinn­inn Greta Thun­berg kemst aft­ur heim til Svíþjóðar en hún hef­ur und­an­farna daga og vik­ur dvalið vest­an­hafs. Hún hélt er­indi á lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna í síðasta mánuði og hef­ur fundað með ráðamönn­um um lofts­lags­vána.

Fram kem­ur á In­sta­gram-síðu Thun­berg að hún muni taka þátt í lofts­lags­verk­falli í Vancou­ver í Kan­ada á morg­un en hún hef­ur haldið lofts­lags­verk­fall alla föstu­daga í rúm­lega ár. Hún hvet­ur íbúa Vancou­ver til að safn­ast sam­an fyr­ir utan listagalle­rí borg­ar­inn­ar.

Thun­berg seg­ir að hún reyni að koma á eins marga staði og mögu­legt er. Því miður hafi hún ekki tíma til að heim­sækja alla. Eins og áður hef­ur komið fram ferðast hún ekki með flug­vél af um­hverf­is­ástæðum en hún hef­ur ferðast um Banda­rík­in á raf­magns­bíl.

Áður hafði komið fram að Thun­berg ætlaði land­leiðina til Síle frá norður­hluta Am­er­íku þar sem hug­mynd­in er að hún verði viðstödd lofts­lags­ráðstefnu í Santiago í des­em­ber. 

Thunberg mótmælir ásamt hópi fólks, yfirleitt ungu fólki, alla föstudaga …
Thun­berg mót­mæl­ir ásamt hópi fólks, yf­ir­leitt ungu fólki, alla föstu­daga hvar sem hún er stödd. AFP

„Greta ferðast ekki með flug­vél­um þannig að hún þarf að kom­ast til Síle og aft­ur til Svíþjóðar með öðrum leiðum,“ sagði talsmaður henn­ar fyrr í mánuðinum. Óvíst er hvernig ferðalög­in verð út­færð.

Thun­berg ferðaðist með kapp­sigl­ing­ar­skút­unni Malizia II yfir Atlants­hafið í sept­em­ber frá Svíþjóð til New York. Lík­legt þykir að hún noti svipaðan ferðamáta fyr­ir heim­ferðina en ekki er ljóst hvenær af henni verður.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina