Framkvæmdastjóri var í samskiptum við RÚV

Rann­sókn innri end­ur­skoðanda Seðlabank­ans hef­ur leitt í ljós að þáver­andi fram­kvæmda­stjóri gjald­eyris­eft­ir­lits Seðlabank­ans átti í tölvu­póst­sam­skipt­um við starfs­mann RÚV í rúm­an mánuð áður en ráðist var í hús­leit hjá Sam­herja 27. mars árið 2012. Þetta kem­ur fram í bréfi Seðlabanka Íslands frá 18. ág­úst 2019 til for­sæt­is­ráðherra sem mbl.is hef­ur í hönd­un­um. 

Rétt er að taka fram að í tölvu­póst­sam­skipt­um fram­kvæmda­stjór­ans við frétta­mann­inn voru eng­ar trúnaðar­upp­lýs­ing­ar en fréttamaður RÚV virðist hafa vitað af fyr­ir­hugaðri hús­leit. 

Eins og áður hef­ur komið fram voru starfs­menn RÚV mætt­ir við skrif­stof­ur Sam­herja, bæði í Reykja­vík og Ak­ur­eyri, áður en hús­leit­in hófst. For­sæt­is­ráðherra hef­ur vísað máli vegna ætlaðs upp­lýs­ingaleka frá Seðlabank­an­um til RÚV til lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. Það kem­ur fram í bréfi for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins til lög­regl­unn­ar.

Upp­lýs­ingalek­inn varð í aðdraga hús­leit­ar hjá Sam­herja og er talið að lek­inn gæti falið í sér refsi­vert brot. 

Þáver­andi fram­kvæmda­stjóri gjald­eyris­eft­ir­lits Seðlabank­ans er Ingi­björg Guðbjarts­dótt­ir. Ingi­björg fékk átta millj­óna króna náms­styrk frá Seðlabank­an­um til að stunda fram­halds­nám við Har­vard há­skóla. Auk þess fékk hún 60% laun í heilt ár á meðan hún var í nám­inu.

Sam­skipt­in virðast hafa tengst öðru

Ingi­björg var í sam­skipt­um við frétta­mann RÚV vegna upp­lýs­inga sem fréttamaður­inn veitti gjald­eyris­eft­ir­lit­inu. 

„Sam­skipti fram­kvæmda­stjór­ans við frétta­mann­inn virðast hafa tengst því og í eng­um póst­anna eru trúnaðar­upp­lýs­ing­ar send­ar frétta­mann­in­um. Í ein­um pósti frá frétta­mann­in­um til fram­kvæmda­stjór­ans sem send­ur er dag­inn fyr­ir hús­leit­ina virðist sem fréttamaður Rík­is­út­varps­ins hafi haft upp­lýs­inga um hús­leit­ina áður en hún átti sér stað,“ seg­ir í bréfi bank­ans. 

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is var það RÚV sem ýtti rann­sókn á Sam­herja af stað. í Kast­ljósþætti RÚV 27. mars 2012, sama dag og hús­leit­in fór fram, seg­ir bein­lín­is: „Rann­sókn Kast­ljóss varð kveikj­an að rann­sókn yf­ir­valda“. Því má leiða lík­um að því að RÚV hafi verið að skoða málið á þeim tíma sem Ingi­björg og fréttamaður­inn áttu í tölvu­póst­sam­skipt­um. 

Tryggvi Gunn­ars­son, umboðsmaður Alþing­is, hef­ur áður óskað eft­ir skýr­ing­um eða upp­lýs­ing­um á leka frá Seðlabank­an­um til RÚV. Hann beindi fyr­ir­spurn vegna máls­ins til Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, for­sæt­is­ráðherra, sem í kjöl­farið skrifaði Seðlabank­an­um bréf 15. mars 2019. Í bréf­inu óskaði hún eft­ir skýr­ing­um á því hvort starfs­menn bank­ans hefðu lekið upp­lýs­ing­um til RÚV í aðdrag­anda hús­leit­ar­inn­ar.

Fyrr á þessu ári var gerð rann­sókn á tölvu­póst­hólf­um Más Guðmunds­son­ar, þáver­andi banka­stjóra, og Arn­órs Sig­hvats­son­ar, þáver­andi aðstoðarbanka­stjóra. Sú rann­sókn sýndi eng­in sam­skipti þeirra við frétta­menn RÚV. 

Í fyrr­nefndu bréfi frá Seðlabank­an­um til for­sæt­is­ráðherra kem­ur fram að póst­hólf fleiri starfs­manna hafi verið rann­sökuð eft­ir að póst­hólf banka­stjór­anna voru tek­in til rann­sókn­ar. Af­hjúpaði sú rann­sókn fyrr­greind­ar upp­lýs­ing­ar um sam­skipti Ingi­bjarg­ar og frétta­manns RÚV. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina