Málið litið alvarlegum augum

„Málið er litið mjög al­var­leg­um aug­um af hálfu Seðlabanka Íslands. Inn­an bank­ans hef­ur allt verið gert til þess að upp­lýsa það. For­sæt­is­ráðherra og bankaráði Seðlabank­ans var greint frá niður­stöðum rann­sókn­ar innri end­ur­skoðunar. Seðlabank­inn tel­ur jafn­framt eðli­legt að for­sæt­is­ráðuneytið hafi upp­lýst lög­reglu um þessa sömu niður­stöðu.“

Þetta seg­ir í skrif­legu svari Seðlabanka Íslands við fyr­ir­spurn frá mbl.is um viðbrögð bank­ans við þeirri ákvörðun for­sæt­is­ráðherra að vísa til lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu máli varðandi ætlaðan upp­lýs­ingaleka frá hon­um til Rík­is­út­varps­ins í tengsl­um við hús­leit hjá út­gerðarfyr­ir­tæk­inu Sam­herja árið 2012.

„Eins og komið hef­ur fram í fjöl­miðlum hef­ur rann­sókn innri end­ur­skoðanda Seðlabank­ans leitt í ljós að starfsmaður Seðlabank­ans og fréttamaður Rík­is­út­varps­ins áttu í sam­skipt­um áður en hús­leit fór fram hjá Sam­herja hf. og tengd­um aðilum. Nán­ar til­tekið fólust sam­skipt­in í því að fréttamaður­inn sendi upp­kast að frétt með tölvu­pósti þar sem hús­leit­ar­inn­ar var getið – dag­inn áður en hún fór fram,“ seg­ir enn­frem­ur og áfram:

„Rann­sókn bank­ans sýndi hins veg­ar að þess­um pósti var ekki svarað. Það er því ekk­ert sem ligg­ur fyr­ir um að upp­lýs­ing­um hafi verið lekið frá Seðlabank­an­um enda ljóst að téð hús­leit var á vitorði margra. For­sæt­is­ráðuneytið upp­lýsti lög­reglu um niður­stöður rann­sókn­ar Seðlabank­ans hvað þetta varðar án þess þó að í því hafi fal­ist nokk­ur efn­is­leg afstaða eins og fram kem­ur í bréfi ráðuneyt­is­ins.“

Fram kem­ur enn­frem­ur í svar­inu að for­svars­mönn­um Sam­herja hafi verið greint frá niður­stöðum rann­sókn­ar innri end­ur­skoðunar Seðlabank­ans. „Þau bréf sem vitnað hef­ur verið til í fjöl­miðlaum­ræðu eru málskjöl sem Seðlabank­inn hef­ur að eig­in frum­kvæði lagt fram í því skaðabóta­máli sem höfðað hef­ur verið vegna mála­rekst­urs bank­ans á hend­ur Sam­herja hf. Að öðru leyti tel­ur Seðlabank­inn rétt að frek­ari um­fjöll­un um málið eigi sér stað und­ir rekstri máls­ins hjá dóm­stól­um.“

mbl.is