Iceland Seafood komið á aðalmarkaðinn

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, hringir inn viðskipti dagsins.
Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, hringir inn viðskipti dagsins. mbl.is/​Hari

Viðskipti með hlutabréf Iceland Seafood International hf. hófust á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, en félagið hafði áður verið skráð á Nasdaq First North-markaðinn. Bjarni Ármannsson, forstjóri félagsins, hringdi inn viðskipti dagsins, eins og venja er þegar ný félög eru skráð á aðalmarkaðinn.

Iceland Seafood er flokkað undir fyrirtæki í neytendaþjónustugeira í Kauphöllinni og er 48. félagið til að vera tekið til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár, en félagið rekur einnig kauphallir í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki. Þetta er hins vegar fyrsta skráningin hér á landi, en með þessu verða skráð félög á íslenska aðalmarkaðnum tuttugu talsins.

Starfsemi Iceland Seafood má rekja alveg til ársins 1932. Félagið er í dag leiðandi þjónustuaðili og söluaðili sjávarfangs úr Norður-Atlantshafinu til markaða um allan heim. Félagið vinnur sjávarfang á Spáni, Bretlandi og Írlandi og er einn stærsti útflutningsaðili fiskafurða frá Íslandi. Helsta söluvara Iceland Seafood eru ýmiss konar fiskafurðir; ferskt sjávarfang og fryst á landi og sjó; saltað, léttsaltað og þurrkað.

Höfuðstöðvar Iceland Seafood eru á Íslandi, en félagið hefur 12 skrifstofur í 8 löndum í bæði Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku. Starfsmenn eru 620 talsins.

Frá opnun markaða í morgun hefur gengi félagsins hækkað um 0,4% í um 40 milljóna króna viðskiptum.

Samtals er fjöldi hlutabréfa um 2,56 milljarðar, en miðað við gengi bréfa félagsins í dag er markaðsvirði félagsins 24,7 milljarðar. Flokkast félagið sem miðlungsstórt félag, en markaðsvirði þess er hærra en Sjóvá en litlu lægra en Eikar.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, …
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, við upphaf viðskipta í dag. mbl.is/​Hari
mbl.is