Erfiðar spurningar frá ungu fólki

Norrænu fánarnir blakta við hún fyrir utan sænska þinghúsið í …
Norrænu fánarnir blakta við hún fyrir utan sænska þinghúsið í Stokkhólmi. Magnus Fröderberg/Norden.org

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði ásamt sjö öðrum forsætisráðherrum með níu fulltrúum norrænna ungmennahreyfinga í Stokkhólmi í gær þar sem umræðuefnið var sjálfbærni og loftslagsmál

Umræðufundurinn var skipulagður að frumkvæði íslensku formennskunnar í norrænu ráðherranefndinni. 

„Við vorum með þrjá þætti í okkar formennskuáætlun, hafið, sjálfbæra ferðamennsku og ungt fólk. Þetta var hugmynd sem við keyrðum á. Að fá unga fólkið til okkar á fund og ég held að þau hafi verið mjög ánægð með að taka þátt í þessu með okkur. Við fengum utanaðkomandi stjórnanda til þess að stjóra fundi ráðherranna og fulltrúa unga fólksins og það tryggði eðlilegt samtal. Við fengum öll erfiðar spurningar frá þessu unga fólki. Fengum tækifæri til að tjá okkur og hlusta. Ég vona að þetta verði ekki bara í þetta skiptið heldur verði það fastur þáttur að fá ungt fólk á fund forsætisráðherra Norðurlandanna,“ segir Katrín.



Katrín segir að þau hafi verið mjög meðvituð um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, samfélagslegum og efnahagslegum þáttum og ekki síst hvað varðar norðurskautið. Þau vilja beinar aðgerðir varðandi félagslega þætti og sérstaklega varðandi norðurskautið sem er mörgum ofarlega í huga og þar erum við í formennsku núna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fjallaði um lýðræðislegt hlutverk grasrótarhreyfinga, stjórnmálaflokka og …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fjallaði um lýðræðislegt hlutverk grasrótarhreyfinga, stjórnmálaflokka og frjálsra félagasamtaka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í ræðu sinni á þingi Norðurlandaráðs. Magnus Fröderberg/Norden.org

Að sögn Katrínar er hún mjög ánægð með að sjá í lok formennskuárs Íslands í norrænu ráðherranefndinni hversu hratt og vel var unnið á árinu. Ekki aðeins hafi verið unnið með áætlunina sem kynnt var á Norðurlandaráðsþinginu í fyrra heldur náðist fram framtíðarsýn til ársins 2030 með umhverfismálin í miklum forgangi.

„Stóra sýnin er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.  Á báðum fundunum okkar á þessu ári var mjög mikið rætt um loftslagsmál og hvaða áskoranir þessi vá skapar fyrir okkar samfélagsgerð þar sem er mjög mikið samfélagslegt traust,“ segir Katrín. „Velferðarríki þar sem okkur er umhugað um réttindi launafólks svo dæmi séu tekin,“ segir hún.

Svansmerkið er merki norræns samstarfs og á uppruna að rekja …
Svansmerkið er merki norræns samstarfs og á uppruna að rekja til veggspjalds sem hannað var fyrir dag Norðurlanda árið 1936 og vísar til ljóðsins „Svanerne fra Norden“ eftir danska skáldið Hans Hartvig Seedorff Pedersen. Norden.org

Katrín segir að meðal annars hafi ráðherrarnir velt upp þeim áskorunum sem loftslagsváin er fyrir ríki sem þessi. Hvernig getum við tryggt að okkar lýðræðislegu leikreglur séu nýttar? Við erum að sjá að yfirvöld eru að ráðast í alls konar aðgerðir og mæta jafnvel mikilli andstöðu, segir Katrín og að það verði að vera félagsleg hugsjón á bak við þær aðgerðir sem gripið er til og að sjálfsögðu efnahagsleg.

„Þetta er ekki einkamál umhverfisráðherra,“ segir Katrín og að hennar sögn voru allir flokkahópar á Norðurlandaráðsþinginu sammála þegar kom að loftslagsmálum og mikilvægi þeirra þrátt fyrir að, líkt og eðlilegt er, kringumstæður séu ólíkar í norrænu löndunum. Þrátt fyrir ólíka hagsmuni eru stefnumálin svipuð, til að mynda eru öll löndin að stefna að kolefnishlutleysi. „Við erum öll meðvituð um þessa félagslegu vídd og sömuleiðis að það þurfa allir að vera með. Að vera þátttakendur,“ segir Katrín.

mbl.is