Silja Dögg forseti Norðurlandaráðs

Forseti og varaforseti Norðurlandaráðs, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Oddný Harðardóttir.
Forseti og varaforseti Norðurlandaráðs, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Oddný Harðardóttir. Magnus Fröderberg/norden.org
Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir var kjör­in í embætti for­seta Norður­landaráðs árið 2020 á þingi ráðsins í Stokk­hólmi sem var slitið í dag.

Íslend­ing­ar gegna for­mennsku í Norður­landaráði árið 2020. Ísland hef­ur valið þrjú áherslu­svið fyr­ir for­mennsku sína: að standa vörð um lýðræðið, meðal ann­ars með því að berj­ast gegn fals­frétt­um, standa vörð um líf­fræðileg­an fjöl­breyti­leika og efla tungu­málak­unn­áttu inn­an Norður­landa.

„Við leggj­um mikla áherslu á líf­fræðileg­an fjöl­breyti­leika, einkum á það að virkja ungt fólk á Norður­lönd­um í starfi á því sviði og einnig á líf­fræðileg­an fjöl­breyti­leika hafs­ins. Með hliðsjón af ástand­inu í lofts­lags­mál­um er þetta afar mik­il­vægt starf,“ seg­ir Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, á vef Norður­landaráðs en hún hún sit­ur í flokka­hópi miðju­manna í Norður­landaráði.

Hvað fals­frétt­irn­ar varðar vill Ísland meðal ann­ars leita svara við því hvernig yf­ir­völd, stjórn­mála­menn, borg­ara­legt sam­fé­lag og aðrar stofn­an­ir sam­fé­lags­ins geta brugðist við upp­lýs­inga­óreiðu og dreif­ingu á rang­færsl­um. Einnig vill Ísland kanna hvaða hlut­verki nor­rænt sam­starf get­ur gegnt í bar­átt­unni við fals­frétt­ir og því að standa vörð um lýðræðið.

Þriðja áherslu­svið Íslands og hins nýja for­seta er tungu­mála­k­unn­átta inn­an Norður­landa. Rann­sókn­ir benda til þess að Norður­landa­bú­um gangi sí­fellt verr að eiga sam­skipti, bæði að skilja talað mál og tjá sig í ræðu og riti.

Það er áhyggju­efni, að sögn Silju Dagg­ar. Hún legg­ur áherslu á að skiln­ing­ur á tungu­mál­um annarra veiti fólki einnig dýpri skiln­ing á öðrum sam­fé­lög­um, menn­ingu þeirra og sögu.

„Við get­um bætt okk­ur og orðið meðvitaðri um mik­il­vægi þess að standa vörð um tungu­mál­in okk­ar. Þetta eru allt lít­il mál og ensk­an sæk­ir að þeim úr öll­um átt­um,“ er haft eft­ir Silju á vef Norður­landaráðs.

Silja Dögg tek­ur við kefl­inu af Sví­an­um Hans Wall­mark. Odd­ný Harðardótt­ir í flokka­hópi jafnaðarmanna var kjör­in í embætti vara­for­seta.

Silja Dögg er þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og hef­ur setið á Alþingi frá 2013.

mbl.is