Útlit fyrir gráa daga í höfuðborginni

Svifryk fer gjarnan yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu þegar lygnt er …
Svifryk fer gjarnan yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu þegar lygnt er og bjart. mbl.is/Hari

Aukn­ar lík­ur eru á því að loft­meng­un gæti farið yfir heilsu­vernd­ar­mörk á höfuðborg­ar­svæðinu á næstu dög­um, því er út­lit fyr­ir svo­kallaða gráa daga á næst­unni. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá Strætó en Strætó og Heil­brigðis­eft­ir­lit Reykja­vík­ur hvetja fólk til þess að vera meðvitað um loft­gæði á höfuðborg­ar­svæðinu á næstu dög­um.

Gert er ráð fyr­ir þurru og hæg­látu veðri á höfuðborg­ar­svæðinu á næstu dög­um en í slík­um aðstæðum geta lík­ur á loft­meng­un vegna köfn­un­ar­efn­is­díoxíðs (NO2) auk­ist.

„Köfn­un­ar­efn­is­díoxíðmeng­un kem­ur frá út­blæstri bif­reiða og er mest á morgn­ana og í eft­ir­miðdag­inn þegar um­ferð er mest. Síðastliðinn sunnu­dag og mánu­dag mæld­ist styrk­ur köfn­un­ar­efn­is­díoxíðs hár við stór­ar um­ferðaræðar“, seg­ir í til­kynn­ing­unni.  

„Við erum að renna inn í tíma­bil þar sem loft­meng­un vegna bílaum­ferðar kann að fara yfir heilsu­vernd­ar­mörk. Það er er erfitt að spá ná­kvæm­lega hvernig köfn­un­ar­efn­is­díoxíið muni safn­ast fyr­ir á höfuðborg­ar­svæðinu og því hvetj­um við fólk til að vera meðvitað um loft­gæði og fylgj­ast með viðvör­un­um“, er haft eft­ir Svövu Stein­ars­dótt­ur, heil­brigðis­full­trúi hjá Heil­brigðis­eft­ir­liti Reykja­vík­ur, í áður­nefndri til­kynn­ingu.  

Best að nýta sér vist­væn­ar sam­göng­ur

Köfn­un­ar­efn­is­díoxíð get­ur valdið ert­ingu í lung­um og önd­un­ar­vegi og ættu börn og þeir sem eru viðkvæm­ir fyr­ir í önd­un­ar­fær­um að forðast úti­vist í lengri tíma og tak­marka áreynslu í ná­grenni stórra um­ferðargatna.

„Besta leiðin til þess að reyna að bregðast við loft­meng­un er að fólk nýti sér vist­væna sam­göngu­máta, eins og að hjóla, ganga eða taka Strætó á milli staða“, seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Vert er að benda á að „grá­ir dag­ar“ eru góðir dag­ar til þess að hvíla bíl­inn og prófa að nota vist­væn­ar sam­göng­ur.  Það er hæg­lætis­veður og eng­in rign­ing. Við fáum í raun ekki betri daga á vet­urna til þess að leggja okk­ar af mörk­um fyr­ir bætt­um loft­gæðum“, er haft eft­ir Guðmundi Heiðari Helga­syni upp­lýs­inga­full­trúa Strætó.

„Hægt er að fylgj­ast með styrk köfn­un­ar­efn­is­díoxíðs (NO2) og annarra meng­andi efna á síðunni loft­ga­edi.is og má þar sjá kort yfir mæl­istaði. Myllu­merki átaks­ins á sam­fé­lag­miðlum er #grár­dag­ur.“

mbl.is