„Ef það verður eitthvað Play Air – Player orðagrín í kringum þetta þá neita ég að fljúga með þeim,“ segir einn Twitter-notandi um heiti flugfélagsins Play, sem opinberað var í morgun. Spéfuglar á netinu hafa tjáð sig um nafnið á þessu nýja flugfélagi sem ætlar að hefja Evrópuflug frá Íslandi í vetur á tveimur flugvélum.
Helsti efniviðurinn sem netverjar hafa fundið til að grínast með er að sé enska orðinu „Air“ bætt fyrir aftan heiti flugfélagsins hljómi það eins og enska orðið „player“, sé það sagt hratt. „Player“ þýðir, fyrir þá sem ekki vita, flagari eða leikmaður á íslensku.
„Þeir völdu á milli Play Air og Íslensk airfðagreinining,“ segir Hallgrímur Oddsson Twitter-notandi. Fimmaurabrandararnir fljúga.
Tekið skal fram að þarna eru netverjar margir að gera ráð fyrir því að flugfélagið heiti Play Air, en það heitir þó einfaldlega Play. Ekkert „Air“ þar fyrir aftan. Þessu virðast ekki allir átta sig á.
Einnig hefur verið grínast með starfstitla þeirra starfa sem flugfélagið auglýsir nú eftir starfsfólki í á vefsíðu sinni. Hildur Hjörvar lögfræðingur vekur máls á því að flugfélagið Play (og bætir reyndar Air um betur) ætli að kalla þjónustufulltrúa sína „leikfélaga“.
Hún segist ekki ætla að leggja meira á fylgjendur sína á samfélagsmiðlinum og vísar þar væntanlega til þeirra hugrenningatengsla sem eru á milli þessa stöðuheitis og leikfélaga Playboy (e. Playboy Playmates) en það heiti var og er reyndar enn notað um þær konur sem prýða miðopnuna í hverri útgáfu bandaríska karlatímaritsins Playboy.
Ekki hata leikmanninn, hataðu leikinn, er þekkt orðatiltæki. Þó nokkrir leggja út af því í gríni sínu. Arnór er þeirra á meðal. Ekki hata Play Air, hataðu flugvélina.
„Áhugavert að nefna flugfélagið eftir sleipiefni,“ skrifar Hans Orri.
Margrét Erla Maack reiknar svo með því að Play (Air) muni setja Dirty Weekend-auglýsingar í loftið innan skamms. Við sjáum hvað setur.