Metfjöldi gróðurelda

00:00
00:00

Óvenju­mikið er nú um gróðurelda í New South Wales (NSW) í Ástr­al­íu, en eld­ar loga þar nú á yfir 90 stöðum. Segja yf­ir­völd í fylk­inu sam­bæri­lega stöðu aldrei hafa komið upp áður í manna minn­um.

„Við erum á áður óþekktu svæði,“ hef­ur BBC eft­ir slökkviliðsstjór­an­um Shane Fitzsimmons og sagði hæsta viðvör­un­arstig ríkja vegna 15 eld­anna. „Við höf­um aldrei séð svo marga elda loga á sama tíma sem kalla á viðvör­un­arstig.“

Eld­arn­ir loga á mörg­um stöðum þar sem þurrk­ar hafa verið og kynda nú sterk­ir vind­ar og hár loft­hiti und­ir log­un­um.

Hafa viðvar­an­ir einnig verið gefn­ar út í Qu­eens­land- og Western Austr­alia-fylkj­un­um vegna gróðurelda. Ástandið hef­ur þó hvergi verið verra en í NSW þar sem slökkvilið hef­ur bar­ist við hundruð gróðurelda frá því í sept­em­ber. Tveir lét­ust í fylk­inu í síðasta mánuði er þeir reyndu að vernda heim­ili sín fyr­ir eld­un­um.

Í síðustu viku brann 2.000 hekt­ara svæði þar sem m.a. var griðland kóala­bjarna og er ótt­ast að hundruð þeirra hafi drep­ist í eld­un­um.

Þurrka­ástand hef­ur nú ríkt lengi í NSW og ótt­ast yf­ir­völd að eld­ar muni halda áfram að kvikna nema það rigni. „Við get­um ekki lagt nógu mikla áherslu á þau áhrif sem þurrk­arn­ir eru að hafa á hegðan eld­anna,“ seg­ir Fitzsimmons, en vitað er til þess að eld­glóð ferðist allt að 12 km leið með vind­in­um og nái að kveikja þar nýja elda.

Þykkt reykjarteppi lá yfir borg­inni Syd­ney í síðustu viku vegna gróðurelda sem þá loguðu í Port Macquarie sem er í um 380 km fjar­lægð.

Hafa yf­ir­völd sagt ofsa eld­anna nú ekki síst vera áhyggju­efni í ljósi þess að heit­ustu mánuðir árs­ins eru ekki enn hafn­ir, en vís­inda­menn hafa varað við því að lofts­lags­breyt­ing­ar valdi aukn­um ofsa og lengri tíma gróðurelda í Ástr­al­íu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina