Karlmaður hefur verið dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir ítrekuð kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa á árunum 2017 og 2018 ítrekað tekið myndskeið yfir skilrúm milli búningsklefa karla og kvenna í húsakynnum sundlaugar og íþróttamiðstöðvar á Vestfjörðum. Þá var manninum gert að greiða 2 milljónir til níu einstaklinga sem hann braut gegn.
Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi en mótmælti bótakröfum, sem voru frá einni milljón upp í tvær milljónir hjá brotaþolum.
Í ákæru málsins er maðurinn ákærður fyrir brot gegn fimm stúlkum undir lögaldri, einum dreng undir lögaldri og þremur konum yfir 18 ára aldri. Voru brotin talin varða við ákvæði almennra hegningarlaga um blygðunarsemisbrot, auk þess sem brotin gegn börnunum voru talin brjóta gegn þeirri grein í barnaverndarlögum sem tekur á ósiðlegu athæfi gegn börnum.
Myndaði maðurinn fólkið þegar það var statt í kvennaklefa sundlaugarinnar með myndavél síma síns og sýndu myndskeiðin fólkið nakið. Stúlkurnar voru á aldrinum 9 til 14 ára þegar brotin áttu sér stað og drengurinn á fimmta ári.