Telur íþróttafélög eiga að afþakka fé frá Samherja

Bjartur Aðalbjörnsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sveitarstjórnarmaður og knattspyrnumaður frá Vopnafirði.
Bjartur Aðalbjörnsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sveitarstjórnarmaður og knattspyrnumaður frá Vopnafirði. mbl.is/​Hari

„Mér finnst að ungmenna- og íþróttafélög á Íslandi eigi að slíta öllu sambandi við Samherja eins og skot. Einhverjir gætu bent á það að höggið væri mikið fyrir sum félög. En það er þá bara verkefni að finna peninga annars staðar ― peninga sem ekki eru rifnir úr höndum þróunarríkis,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sveitarstjórnarmaður á Vopnafirði og fyrirliði karlaliðs Einherja í knattspyrnu, á Facebook-síðu sinni.

Bjartur í leik með Einherja í sumar.
Bjartur í leik með Einherja í sumar.

Vopnfirðingurinn segir að auður Samherja í Namibíu hafi verið „fenginn með lögbrotum og svívirðilegum hroka í anda nýlenduherra“ og að sjávarútvegsfyrirtækið hafi arðrænt namibísku þjóðina.

„Það getur ekki talist siðferðislega rétt að fjármagna starf barna- og unglinga á Íslandi með peningum sem með réttu ættu að fara í menntun, húsnæði, rafmagn, hreint vatn og aðra grunninnviði fyrir börn, unglinga og foreldra þeirra í Namibíu.

Ef ungmennafélagið mitt, Einherji, þæði styrki frá Samherja myndi ég krefjast þess að öllu samstarfi yrði slitið ellegar ég kæmi ekki nálægt starfi félagsins framar,“ segir Bjartur.



mbl.is