Björgólfur Jóhannsson hefur tilkynnt að hann muni tímabundið láta af störfum sem stjórnarformaður og stjórnarmaður hjá Íslandsstofu.
Greint var frá því í morgun að Björgólfur hafi tímabundið tekið við sem forstjóri Samherja á meðan að Þorsteinn Már Baldvinsson stígur til hliðar í tengslum við rannsókn á ætluðum brotum dótturfélags Samherja í Namibíu sem greint var frá í fréttaskýringaþættinum Kveik í vikunni.
Frá þessu er greint á vef Íslandsstofu, en Hildur Árnadóttir varaformaður stjórnar Íslandsstofu hefur tekið við hlutverki formanns Íslandsstofu. Þá tekur Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri þróunar, sölu- og markaðssviðs Bláa lónsins sem er varamaður í stjórn Íslandsstofu, sæti í stjórninni í fjarveru Björgólfs.
Greint var frá því fyrr í dag Björgólfur hafi einnig tilkynnt félaginu Festi um afsögn sína úr stjórn Festar vegna tímabundinnar ráðningar sinnar til Samherja. Festi er móðurfélag N1, Krónunnar, Elko og fleiri félaga og er skráð í Kauphöllina.