Páll Reynisson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, hefur haldið austur á land í þeim tilgangi að búa loðnuskip til leitar og mælinga á loðnu, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Þá verður meðal annars unnið að því að kvarða dýptarmæli Barkar NK og næmni mælanna athuguð.
„Nauðsynlegt er að vita hvað mælarnir sýna svo unnt sé að meta magn loðnu sem mælist á tilteknu svæði. Gert er ráð fyrir að mælar í fjórum skipum verði kvarðaðir,“ er haft eftir Páli. Nær athugunin til skipanna Barkar NK, Bjarna Ólafssonar AK, Aðalsteins Jónssonar SU og grænlenska skipsins Polar Amaroq.
„Það getur verið mjög mikilvægt að eiga kost á að nýta þessi skip til leitar og mælinga á loðnu auk hafrannsóknaskipanna. Þegar skipin fara í leitarleiðangra eru menn frá Hafrannsóknastofnun um borð til að vakta mælana og fylgjast með þeim upplýsingum sem þeir gefa. Loðnuskip hafa áður verið nýtt til mælinga. Síðasta vetur fóru loðnuskipin Börkur NK, Polar Amaroq, Aðalsteinn Jónsson SU, Heimaey VE og Ásgrímur Halldórsson SF í leiðangra á tímabilinu desember og fram í febrúar og nýttust vel þó ekki tækist að finna nægilegt magn af loðnu til að heimila veiðar,“ segir Páll.