Sameinumst gegn þeim sem stela frá okkur

Bern­h­ar­dt Esau, fyrrverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu, sagði af sér í vikunni.
Bern­h­ar­dt Esau, fyrrverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu, sagði af sér í vikunni. Ljósmynd/Sjávarútvegsráðuneyti Namibíu

Mót­mælt var fram­an við skrif­stofu namib­ísku spill­inga­lög­regl­unn­ar (ACC) á föstu­dag vegna Sam­herja­máls­ins. Sam­kvæmt frétt namib­ísku NBC sjón­varps­stöðvar­inn­ar höfðu lög­fræðing­ar, op­in­ber­ir emb­ætt­is­menn, stjórn­mála­menn og aðgerðarsinn­ar gert sér ferð víða að úr land­inu til að taka þátt í mót­mæl­un­um.

Krefjast mót­mæl­end­ur þess að þeir ráðamenn sem sakaðir hafa verið um spill­ingu verði hand­tekn­ir hið fyrsta, hald lagt á eign­ir þeirra og bankainni­stæður fryst­ar.

„Hand­takið þá, hand­takið þá, eða við hand­tök­um þá sjálf,“ sagði einn mót­mæl­end­anna. „Við erum að sam­ein­ast gegn þeim sem stela frá okk­ur og kyn­slóðum framtíðar,“ sagði ann­ar. „Fólk hef­ur misst vinn­una vegna sjálfs­elsku þeirra,“ sagði sá þriðji.

Greint hef­ur verið frá því að Bern­ar­dt Esau sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu og Sacky Shangala dóms­málaráðherra lands­ins sögðu af sér í vik­unni eft­ir að ljóstrað var upp um greiðslur Sam­herja.

Að því er fram kem­ur í frétt NBC þá vilja mót­mæl­end­ur að Paul­us Noa, yf­ir­maður ACC segi einnig af sér, en Noa segja þeir vera van­hæf­an og hafa sýnt sig ófær­an um að taka á spill­ing­unni.

mbl.is