Lögregluyfirvöld í Hong Kong hóta því nú að beita skotvopnum gegn þeim mótmælendum sem beita hættulegum vopnum á borð við bensínsprengjum gegn þeim.
Guardian greinir frá og segir átök milli óeirðalögreglu og mótmælenda hafa náð nýjum hæðum í dag.
Þannig særðist einn lögreglumaður er hann fékk ör í fótlegginn, sem skotið hafði verið af boga, á meðan mótmæli fóru fram fyrir utan PolyU-háskólann fyrr í dag. Grímuklæddur bogamaður skaut örinni í kálfa lögreglumannsins sem sá um öryggisgæslu fyrir utan háskólann.
Eftir rúmlega 12 tíma átök við skólann þar sem lögregla beitti táragasi og vatnsbyssum og ók brynvörðum bíl í átt að mótmælendum sem köstuðu bensínssprengjum, tilkynnti lögregla að hún myndu beita skotvopnum gegn „óeirðaseggjum“ hættu þeir ekki að beita banvænum vopnum gegn lögreglu.
Mótmælendur tóku háskólann yfir í átökum síðustu viku og var háskólasvæðið í dag vettvangur lengstu og spennuþrungnustu átaka sem orðið hafa milli mótmælenda og lögreglu frá því að mótmælin hófust fyrir fimm mánuðum síðan.