Tugir mótmælenda í Hong Kong flúðu umsátursástand við tækniháskóla með því að síga niður í reipi frá göngubrú á umferðargötu. Þar voru þeir sóttir af fólki sem beið þeirra á mótorhjólum.
Mótmælendurnir, sem meðal annars krefjast frjálsra kosninga í borginni, höfðu verið fastir í tvo daga í Tækniháskóla Hong Kong vegna umsáturs lögreglunnar. Hún hefur hótað því að beita skotvopnum til að fjarlægja mótmælendur.
Eldur var sömuleiðis kveiktur við aðalinngang háskólans í morgun til að koma í veg fyrir að lögreglan kæmist þangað. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi frá AFP-fréttastofunni er ástandið á svæðinu slæmt.
Liu Xiaoming, sendiherra Kína í Bretlandi, segir að kínversk yfirvöld muni bregðast við ef mótmælin þróist út í „stjórnlaust“ ástand. „Ég held að stjórnin í Hong Kong sé að reyna hvað hún getur til að ná stjórn á ástandinu,“ sagði hann.
„En ef ástandið verður stjórnlaust mun kínverska stjórnin ekki sitja hjá aðgerðarlaus og horfa á. Við höfum næg úrræði og nægan kraft til að binda enda á þennan óróa.“