Norski ríkisbankinn DNB þarf að leggja öll spilin varðandi viðskipti sín við Samherja á borðið. Viðskipta- og fjármálaráðuneyti Noregs hvetja bankann til að vinna með norska fjármálaeftirlitinu og efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar.
Þetta segir Bjørnar Angell, talsmaður norska fjármálaráðuneytisins í samtali við norsku fréttastofuna NTB. Vísað er í fréttina á vef norska dagblaðsins Aftenposten og þar er haft eftir Magnus Thue aðstoðarviðskiptaráðherra að það sé forgangsmál hjá norsku ríkisstjórninni að vinna gegn peningaþvætti, en ríkið á 34% eignarhlut í DNB.
Samkvæmt umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um viðskipti Samherja í Namibíu tengjast reikningar Samherja í DNB þeim mútugreiðslum sem fjallað hefur verið um.
Samkvæmt frétt norska dagblaðsins Dagens Næringsliv hefur norska fjármálaeftirlitið aukið eftirlit með viðskiptaháttum DNB undanfarin tvö ár. Eftirlitið hefur nokkrum sinnum gert athugasemd við slæleg vinnubrögð bankans og að hann hafi látið hjá líða að tilkynna fjármálaeftirlitinu þegar grunur hefur vaknað um hugsanlegt peningaþvætti.
Í bréfi frá fjármálaeftirlitinu til DNB bankans, sem vísað er í í frétt Aftenposten, segir að þessi vinnubrögð gætu verið vísbending um „grunsamleg tengsl“.