Hvað veldur miklum kláða á fótleggjum?

Íslensk kona finnur fyrir miklum kláða.
Íslensk kona finnur fyrir miklum kláða. Ljósmynd/Unsplash

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem berst við mikinn kláða. 

Sæl og blessuð. 

Hvað veldur miklum kláða á fótleggjum og mjöðmum? Hvað er til ráða?

Kær kveðja, Jóna

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Sæl!

Kláði er mjög algengt vandamál sem ég þori að fullyrða að allir upplifa einhvern tímann á ævinni. Það eru hins vegar mjög margar ólíkar orsakir fyrir kláða, allt frá einföldum þurrk í húðinni, bólgusjúkdómum eins og exemi og psoriasis til lyfjaaukaverkanna og undirliggjandi heilsufarsvandamála.  

Aðrar algengar orsakir kláða geta verið kláðamaur, skrifhúð (e. Urticaria) og hársekkjabólgur eða sýkingar. Ég gæti líklega talið upp a.m.k. 50 aðrar orsakir fyrir húðkláða en læt það þó ógert að þessu sinni enda efni í stóra ritgerð! Eins og þú sérð er kláði ekki bara kláði og þetta vandamál þarfnast greiningar hjá heimilislækni eða húðsjúkdómalækni. Hins vegar er kláði á fótleggjum, sérstaklega sköflungum, langoftast orsakaður af húðþurrk. Húð okkar þornar meira í kulda og þurrki vetrarmánaðanna og þá þurfum við að nota rakakrem til að fyrirbyggja óþægindi sem stafa af þurrkinum.

Ég ráðlegg þér að prófa því gott rakakrem í nokkra daga og ef kláðinn lagast ekki skaltu leita sérfræðiaðstoðar til að greina og meðhöndla vandamálið frekar.

Gangi þér vel

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Rögnu Hlín spurningu HÉR. 

mbl.is