192 milljarða útflutningur sjávarafurða á árinu

Útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur hækkað talsvert milli ára.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur hækkað talsvert milli ára. mbl.is/Golli

Verð sjávarafurða hefur hækkað talsvert í erlendri mynt á árinu. Þá hefur hækkunin verið umfram hækkun almenns verðlags erlendis, að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. „Hækkunin á þriðja ársfjórðungi nam 9,3% milli ára og er það mesta hækkun á 12 mánaða grundvelli síðan á öðrum fjórðungi 2015, þegar verðið hækkaði um 13,3%.“

Bent er á að á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2019 var verðið 8,2% hærra en á sama tímabili í fyrra en verðvísitala Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna á kjöti hækkaði aðeins um 2,5% á tímabilinu.

Sé verðþróun skoðuð til lengri tíma „hefur verð íslenskra sjávarafurða hækkað meira en heimsmarkaðsverð á kjöti. Þannig nemur hækkun verðs á íslenskum sjávarafurðum um 50% frá árinu 2010 en verðhækkun á kjöti nemur á sama tímabili 20%,“ segir í Hagsjánni.

Loðnan hækkar um 114%

Á fyrstu þremur ársfjórðungum 2019 nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 192 milljörðum króna borið saman við 171,6 milljarða á sama tíma í fyrra. Þannig hafa útflutningsverðmæti aukist um 2,4 milljarða milli ára eða því sem nemur 11,9%. Telur hagfræðideild Landsbankans að aukningin skýrist að miklu leyti af lækkun gengis krónunnar, en án gengisáhrifa var aukning útflutningsverðmæta aðeins 0,2%.

Loðna veidd við Vestmannaeyjar.
Loðna veidd við Vestmannaeyjar. mbl.is/RAX

Þá segir í Hagsjánni að aukningin sé lítil þrátt fyrir verðhækkun vegna loðnubrests, enda urðu útflutningsverðmæti af loðnu 10,2 milljörðum króna minni á tímabilinu. Minna framboð af loðnu hefur haft töluverð áhrif á verðmæti hennar og hefur markaðsverð loðnu hækkað um 114% milli ára.

Það er ekki eingöngu á Íslandi sem ekki hefur verið veidd loðna á síðasta fiskveiðiári, heldur er orðið ljóst að ekki verða loðnuveiðar á Barentshafi á þessu fiskveiðiári.

Mikil verðhækkun humars

„Næstmesta hækkunin var í humri sem hækkaði um tæp 30%. Ekki er ólíklegt að verðhækkunina megi að hluta rekja til minna framboðs af humri en veiðar voru 64% minni í tonnum talið á fyrstu 9 mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Þá er bent á að þriðja mesta hækkunin hafi verið í skarkola, eða 20%, og að „verðhækkun á langmikilvægasta fiskistofninum, þorskinum, nam 7,1% milli ára. Verð á ýsu hækkaði um 1%, ufsa um 4,6% og karfa 13,3%.“

Lítið hefur veiðst af humri.
Lítið hefur veiðst af humri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is