Ofbeldi, hótanir og umsátursástand. Þessi þrjú orð lýsa ástandinu í Hong Kong þessa dagana nokkuð vel og nú um helgina munu íbúar borgríkisins ganga að kjörborðinu og kjósa til héraðsstjórna.
Kosið verður um 452 fulltrúa í þeim 18 héruðum sem Hong Kong er skipt í og er þetta eina tækifærið fyrir íbúa þar til að hafa bein lýðræðisleg áhrif.
Kjörstaðir verða opnaðir á sunnudagsmorguninn og margir sjá þessar kosningar sem prófstein á vinsældir Carrie Lam, leiðtoga heimastjórnarinnar í Hong Kong sem styður aðgerðir kínverskra stjórnvalda á svæðinu. Að öllu jöfn hafa þessar kosningar verið tíðindalitlar og meirihluti frambjóðenda hefur verið hliðhollur kínverskum stjórnvöldum, en nú er breyting þar á. Andstæðingar kínverskra stjórnvalda vonast til þess að fá meirihluta atkvæða og hvetja nú ákaft til kosningaþátttöku.
Mótmæli hafa staðið yfir reglulega í Hong Kong síðan snemma í júní og hefur ofbeldi reglubundið færst í aukana. Upphaf þeirra má rekja til lagafrumvarps sem heimila átti framsal meintra brotamanna til meginlands Kína. Þau þróuðust síðan í ákall um auknar lýðræðisumbætur og að kínversk stjórnvöld létu sjálfsstjórnarborgina afskiptalausa.