Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, sem handtekinn var í gær hefur verið látinn laus úr haldi. Áður höfðu lögmenn Esau og lögmenn ACC, spillingarlögreglunnar í Namibíu, tekist á um varðhaldið fyrir dómstólum, en ákvörðun þar var frestað til þriðjudags.
Fréttastofa RÚV hefur hins vegar eftir Paulus Noa, framkvæmdastjóra ACC að samkomulag hafi verið gert utan réttarsala um að gera handtökuskipunina ógilda þar sem sú fyrri hafi ekki uppfyllt öll skilyrði. Hann segir jafnframt að ný umsókn um handtökuskipun verði lögð fram á morgun.
Fyrr í dag var greint frá því í namibískum miðlum að ACC hefði gefið út yfirlýsingu þess efnist að öll gögn sem skoðuð hafi verið í Samherjamálinu og sá vitnisburður sem gefinn hafi verið bendi til þess að mútur, peningaþvætti og skattsvik hafi átt sér stað.
Esau var hantekinn í gær ásamt Richardo Gustavo, sem kemur fyrir í skjölum Wikileaks í tengslum við meintar mútur Samherja til ráðamanna í Namibíu. Lögreglan leitar enn þriggja manna sem kallaðir hafa verið hákarlarnir.