Allt stefnir í að stjórnarandstaðan vinni stórsigur í héraðskosningunum í Hong Kong sem fram fara í dag. Metkjörsókn var í kosningunum, 71% samanborið við 47% árið 2015. BBC greinir frá því að stjórnarandstæðingar hafi hlotið 201 af fyrsta 241 sætinu. Kosningarnar eru líkari sveitarstjórnarkosningum en þingkosningum, og nær áhrifasvið þeirra yfir skipulagsmál og samgöngur.
Kosningarnar eru þó sagðar prófsteinn á stuðning almennings við héraðsstjórann Carrie Lam, sem hefur staðið í ströngu undanfarin misseri vegna mikilla mótmæla í sjálfsstjórnarhéraðinu. Þá hafa sveitarstjórnarfulltrúarnir einhver áhrif á val á héraðsstjóra sjálfstjórnarhéraðsins. Að öllu jöfn hafa kosningarnar þótt tíðindalitlar og meirihluti frambjóðenda hefur verið hliðhollur kínverskum stjórnvöldum, en nú er breyting þar á.