„Hyggst einfaldlega vinna mína vinnu“

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Hari

„Viðbrögð mín við fundinum eru engin sérstök að öðru leyti en því að ég hyggst einfaldlega vinna mína vinnu með sama hætti og ég hef gert, sinna mínu pólitíska starfi sem og embættisskyldum í ráðuneytinu með nákvæmlega sama hætti og af bestu samvisku, gæta að hæfi, hvort heldur er um að ræða sérstök mál eða annað því um líkt, og leggja mig einfaldlega fram um að sinna þeim verkum sem mér hefur verið treyst og trúað fyrir.“

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen, þingmanni Pírata, sem spurði ráðherrann hver viðbrögð hans væru við mótmælum sem fram fóru á Austurvelli í Reykjavík á laugardaginn þar sem meðal annars var krafist afsagnar hans. Spurðu Halldóra hvort Kristján teldi sér enn treyst í kjölfar mótmælanna. Hvað þyrfti til þess að hann segði af sér embætti.

Finnur bæði fyrir trausti og vantrausti

„Ég finn bæði fyrir trausti og vantrausti eins og við stjórnmálamenn gerum iðulega í okkar störfum. Þau eru umdeild og við því er ekkert að segja. Við leggjum verk okkar í dóm kjósenda, oftast nær á fjögurra ára fresti. Ég treysti mér fyllilega til að standa undir því trausti sem mér hefur verið sýnt til að gegna störfum fyrir Norðausturkjördæmi en um leið taka þátt í störfum Alþingis fyrir alla landsmenn,“ sagði ráðherrann enn fremur:

Sagðist Kristján ætla að vona að störf stjórnmálamanna á Íslandi yrðu aldrei á þann veg að þeir yrðu ekki umdeildir. Hann hefði engan mælikvarða á fjölda einstaklinga sem þyrftu að hafa traust á störfum þingmanns. Sagðist honum þykja vænt um ef Halldórs gæti upplýst hann um þá „undratölu“ sem hún virtist hafa undir höndum.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is